Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Létu til skarar skríða gegn Vottum Jehóva

24.11.2020 - 11:30
epa08090741 Russian police officers search the Anti-Corruption Foundation (FBK) headquarters in Moscow, Russia, 26 December 2019. Russian police raided the headquarters of FBK, a non-governmental organization established by Russia's opposition leader Alexey Navalny to investigate and expose corruption among high-ranking Russian government officials. Navalny was forcibly dragged out of the office, contrary to earlier reports stating that he had been briefly detained.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Sérsveitarmenn úr rússnesku lögreglunni. Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögregluyfirvöld í Rússlandi framkvæmdu í gær húsleitir víða um landið og hófu sakamálarannsókn á starfsemi Votta Jehóva í landinu, sem dæmd voru öfgasamtök af hæstarétti landsins árið 2017 og starfsemi þeirra bönnuð.

Samtökin eru meðal annars sökuð um að hafa staðið fyrir samkomum þrátt fyrir að vera bönnuð. Húsleitir fóru fram á meira en 20 svæðum víðsvegar um Rússland en flestar í Moskvu. Samkvæmt Vottum Jehóva hafa meira en 400 meðlimir verið handteknir eða dæmdir frá 2017 og leitað á heimilinum meira en þúsund þeirra.

Er hæstiréttur Rússlands dæmdi samtökin ólögleg var þeim gert að hætta starfsemi og hófust þá lögregluaðgerðir gegn þeim. Samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum á síðari hluta 19. aldar og saka rússnesk yfirvöld þau um að hafa vanvirt ríkisvaldið og tákn þess líkt og fána.

Í myndskeiði frá yfirvöldum úr húsleit í Moskvu sást fjöldi trúarrita og nokkuð magn af reiðufé í erlendum gjaldmiðlum, þar á meðal Bandaríkjadollurum, sem lagt var hald á.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sagt að ekki skuli álíta Votta Jehóva hryðjuverkasamtök en það hefur ekki haft nein áhrif á aðgerðir lögreglu gegn þeim. Mannréttindasamtökin Human Rights Watch fordæmdu í júlí framgöngu rússneskra yfirvalda gegn Vottum Jehóva og segja um trúarlegar ofsóknir að ræða. Meðal þeirra sem handteknir hafa verið í aðgerðum lögreglu undanfarin ár er danskur ríkisborgari, Dennis Christensen. Hann var tekinn höndum 2017 og sat í varðhaldi í tvö ár áður en hann var dæmdur fyrir þátttöku sína í starfi Votta Jehóva.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV