Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Innflutningur sjávarafurða til Bandaríkjanna í hættu

24.11.2020 - 22:51
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Breytingar á bandarískum innflutningsreglum um meðafla sjávarspendýra gætu leitt til banns á innflutningi íslenskra sjávarafurða. Reglurnar banna innflutning á afurðum þar sem sjávarspendýr veiðast sem meðafli yfir ákveðnu marki.

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ingu Sælands formanns Flokks fólksins um viðbrögð við aðgerðum bandarískra stjórnvalda gegn meðafla sjávarspendýra. Breytingar á lögum um vernd sjávarspendýra við veiðar (Marine Mammal Protection Act) taka gildi 1. janúar 2023. Upphaflega áttu þær að taka gildi ári fyrr.

Útselur og landselur yfir meðaflamarki

Ráðherra segir í svari sínu að síðan bandarísk yfirvöld tilkynntu lagabreytinguna hafi vinna staðið yfir í nokkrum ráðuneytum með aðkomu hagsmunaaðila til að uppfylla kröfur þeirra. Samráðshópur var skipaður í maí  til ráðgjafar í samskiptum við Bandaríkin vegna málsins og lágmarka áhrif fiskveiða og fiskeldis á sjávarspendýr.

Fram kemur í svari ráðherra að Hafrannsóknastofnun hafi rannsakað meðafla sjávarspendýra við veiðar íslenska fiskveiðiflotans og eru aðeins landselur og útselur yfir meðaflamarki bandarísku reglanna. Selategundirnar eru meðafli við veiðar í botnvörpu og net, til að mynda þorskanet og grásleppunet. Mestur hluti meðaflans kemur í grásleppunet samkvæmt Hafrannsóknarstofnun.

Innflutningsleyfi fást mögulega ekki

Ráðherra segir viðbúið að samkvæmt reglunum fái sjávarafurðir úr veiðum þar sem meðafli er yfir mörkum fyrir einstaka stofna sjávarspendýra ekki innflutningsleyfi frá því er breytingarnar taka gildi. Þetta hefði einkum áhrif á útflutning grásleppuafurða til Bandaríkjanna þar sem mest er af útsel og landsel í meðafla. Enn sé endanleg útfærsla reglanna hvað varðar afurðir úr mismunandi veiðar frá einstökum löndum þó á reiki.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grásleppa.
thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV