Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Heilsu og öryggi stefnt í hættu náist ekki samningar

24.11.2020 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Arason
Landsamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) skorar á samninganefnd ríkisins að koma í veg fyrir „grafalvarlegt ástand“ með því að semja um kaup og kjör við flugvirkja Landhelgisgæslunnar.

Í yfirlýsingu frá LSS segir að sú staða sem blasi við, að engar björgunarþyrlur verði tiltækar hér á landi, skapi mikla hættu. Fari svo að björgunarþyrlurnar verði kyrrsettar sökum verkfalls flugvirkja Landhelgisgæslunnar sé heilsu fólks stefnt í voða.

Þrátt fyrir að Ísland sé lítil eyja eru samgöngur hér sérstaklega yfir vetrarmánuðina oft erfiðar og tímafrekar. Ef bráð veikindi eða slys bera að höndum er mikilvægt að keðja neyðarþjónustu heilbrigðiskerfisins utan spítala sé sterk og þar spila þyrlur Landhelgisgæslunnar afar mikilvægt hlutverk fyrir stóran hluta landsins og er ómissandi fyrir sjófarendur,

segir meðal annars í yfirlýsingu LSS. Sambandið segir mikilvægt að samninganefnd ríkisins leiti allra leiða til að ná samningum við flugvirkja.

Sjómannafélag Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur lýsa einnig yfir áhyggjum af stöðu mála. Þau telja að öryggi sjófarenda og landsmanna sé stefnt í hættu náist ekki samningar. Enn fremur lýsa þau yfir fullum stuðningi við flugvirkja.

Svo það komi skýrt fram þá hafa þær starfstéttir sem eru á skipum Gæslunnar engan verkfallsrétt og er framganga Landhelgisgæslunnar gagnvart þeim stéttum til háborinna skammar, og hefur stofnunin sýnt þeim mikla vanvirðingu með mismunun á kjörum þar sem óskýrir hagsmunir séu hafðir í forgangi í gerð kjarasamninga,

segir í yfirlýsingu félaganna þriggja.