
Fá ekkert á krókana eftir að togarar fara um „Skápinn“
Í nýlegri bókun heimastjórnar á Borgarfirði segir að á meðan Skápurinn sé opinn fyrir togurum þurfi smábátar að róa langt eða allt að 40 sjómílur til að eiga von á afla. Ólafur Hallgrímsson sjómaður sem situr í heimastjórn segir að eftir að togarar kemba svæðið í lok ágúst fái smábátasjómenn ekkert á krókana, eða lítið, í langan tíma. Svo virðist sem fiskurinn styggist. Veiðar á þessum stað skipti ekki sköpum fyrir togara en mun meira máli fyrir borgfirska sjómenn enda séu þetta heimamið þeirra. ,,Við neitum að trúa því að það sé svo slæmt ástand á fiskimiðum við landið að þessi litli blettur skipti höfuðmáli fyrir útgerð togara," segir hann.
Borgfirðingar hafi talað fyrir daufum eyrum um þetta mál í áratugi síðan Halldór Ásgrímsson var sjávarútvegsráðherra.