Etch eftir Hauk Þór Harðarson

Mynd: - / RÚV

Etch eftir Hauk Þór Harðarson

24.11.2020 - 08:09

Höfundar

„Efniviður þessa verks er hogginn út, tekið er úr honum frekar en hlutum viðbætt. Þangað til að það sem eftir stendur er beinagrindin ein. Hæg, hljóðlát og hvíslandi.“ Haukur Þór Harðarson um verkið Etch.

Þema tónlistarhátíðar Rásar 1 árið 2020 er þræðir og hverfist hún um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Pöntuð voru fjögur ný tónverk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur á tónleikum.

Mynd: - / RÚV
Haukur Þór Harðarsson segir frá Etch.

Í tónverkum Hauks Þórs Harðarsonar er það ekki síður upplifunin á rýminu og umhverfi flutningsins sem er til umfjöllunar heldur en tónlistin sjálf. Fíngerðar umbreytingar hvað varðar hljóðin og form þeirra bjóða hlustandanum að skapa margræðar og ólíkar tengingar við hljóðrýmið og flæði tímans sem líður í tónlist hans. Tónlist Hauks hefur verið lýst sem viðkvæmri, fíngerðri, ákafri, einbeittri og áþreifanlegri.

Haukur lærði tónsmíðar hjá Atli Ingólfssyni við Listaháskóla Íslands og hjá Richard Ayres og Wim Henderickx við Conservatorium van Amsterdam, ásamt því að hafa sótt Sonologíu kúrsinn við Koninklijk Conservatorium Den Haag. Samhliða námi sínu hefur hann sótt vinnustofurnar Voix Nouvelles (Royaumont klaustrið, 2014), Musiikin Aika (Vitasaari, 2015), Mixtur (Barcelona, 2016), the International Young Composers Academy (Tchaikovsky City, 2016) Darmstadt International Ferienkurse (Darmstadt, 2018) og Yrkju (Reykjavík 2018/2019).

Haukur hefur sótt einkatíma hjá tónskáldunum Brian Ferneyhough, Carola Bauckholt, Chaya Czernowin, Dmitri Kourliandski, Fabien Levy, Johannes Schöllhorn, Mark André, Peter Ablinger, Oscar Bianchi, Rebecca Saunders, Georgie Lewis, Pierluigi Billone, Önnu Thorvaldsdóttur, Milica Djordjevic og Liza Lim.

Verk hans hafa verið flutt af tónlistarhópum og einleikurum eins og Sinfóníuhljómsveit íslands (IS),  Caput (IS), Neon (NO), Ensemble Recherche (DE), Neue Vocalsolisten (DE), Asko/Schönberg (NL), Nieuw Ensemble (NL), TAK (US), Quatuor Diotima (FR), Strokkvartettinum Sigga (IS), Taïga strengjakvartettinum (DK), Moscow Contemporary Music Ensemble (RU), Marco Fusi (IT), Jack Adler- McKean (UK), Sophie Fetokaki (CY), Marina Kifferstein (US), Dejana Sekulic (SE), Sarah Saviet (US),  Unu Sveinbjarnardóttur (IS), Ingólfi Vilhjálmssyni (IS), Ensemble Adapter (IS/DE) og Loadbang (US).

Tónlist hans hefur verið flutt á hátíðunum: Myrkum Músíkdögum (IS), Iceland in New York (US), An Evening of Today (NL), Darmstadt Ferienkurse (DE), Cluster (DE), 15:15 (IS), Sonic festival (DK), Musik21 (DE), Open days (Dk), Transart (IT) og Ung Nordisk Musik (IS/NO/SE/DK/FI), sem hann einnig tók þátt í að skipuleggja árið 2017.

Haukur er einnig stofnmeðlimur og meðstjórnandi tónleikaséríunnar Active-Listening í Berlín. Markmið seríunnar er að Kynna nútímatónlist og spuna í samhengi markvissar hlustunar þar sem rauður þráður liggur í gegnum öll verk sem eru hverjum tónleikum fyrir sig.
 


Tónlistarhópurinn ELEKTRA ENSEMBLE er skipaður fimm framúrskarandi tónlistarkonum. Í hópnum eru Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarinettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Hópurinn, sem var stofnaður árið 2008, var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og gekk í kjölfarið til samstarfs við Listasafn Reykjavíkur um tónleikaröð á Kjarvalsstöðum sem stóð frá árinu 2009 til 2015. Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, Óperudögum í Kópavogi, Halland Opera and Vocal Festival í Svíþjóð, í BOZAR-tónleikahöllinni í Brussel og á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum. Frá 2016 til 2019 var hópurinn hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu.

Elektra Ensemble hefur hlotið góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda auk þess sem RÚV hefur margsinnis hljóðritað leik hópsins. Auk þess að flytja helstu perlur tónbókmenntanna leggur hópurinn mikla rækt við frumflutning nýrra verka. Hópurinn hefur frumflutt verk eftir m.a. Helga Rafn Ingvarsson, Huga Guðmundsson, Kolbein Bjarnason, Þuríði Jónsdóttur, Þórð Magnússon, félaga í tónskáldahópnum Errata Collective og mörg önnur tónskáld. Í tilefni af 10 ára starfsafmæli Elektra Ensemble gaf hópurinn út hljómplötu með verkum sem samin hafa verið fyrir hópinn. Elektra Ensemble hefur notið styrkja frá Tónlistarsjóði og Reykjavíkurborg um árabil en einnig hlutu tónlistarkonurnar starfslaun listamanna árið 2016 fyrir starf sitt með hópnum. Hópurinn var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019.