Blaen eftir Veronique Vöku

Mynd: - / RÚV

Blaen eftir Veronique Vöku

24.11.2020 - 08:23

Höfundar

„Í tilefni af 250 ár fæðingarafmæli Beethovens, skoðaði ég fjórða kafla Pastoral sinfóníunnar, Gewitter, Sturm, og valdi þaðan safn tónefnis sem varð upphafspunktur verksins Blaen. Þessu efni umbreytti ég síðan svo það félli að skynjun minni á stormi, með áherslu á kyrrðina sem myndast milli vindhviða.“ Veronique Vaka um tónverkið Blaen.

Þema tónlistarhátíðar Rásar 1 árið 2020 er þræðir og hverfist hún um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Pöntuð voru fjögur ný tónverk sem tónlistarhópurinn Elektra flytur á tónleikum.

Mynd: - / RÚV
Veronique Vaka um Blauen.

Veronique Vaka, fædd 1986, er tónskáld staðsett á suður Íslandi. Hún lærði klassískan sellóleik og electro-acoustic tónsmíðar í Montreal háskólanum og útskrifaðist með meistaragráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands. Árið 2017 var hún ein af tveimur tónskáldum sem valin voru til þátttöku í verkefninu Yrkja þar sem hún skrifaði verkið „Rift“ fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Annað hljómsveitarverkið hennar „Lendh“, skrifað 2018, var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem tónverk árin 2019 en einnig tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandarráðs fyrir hönd Íslands 2020.
Verkin hennar Veronique Vöku hafa verið flutt í Evrópu og Norður Ameríku. Hún hefur skrifað verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Áhugamanna, Ensemble Paramirabo (CA), Duo Harpverk, Ensemble Synaesthesis (LT), Ensemble Adapter, Caput Ensemble, Siggi String Quartet, Ensemble Dasein (SE), Nordic Affect, Opus XX Orchestra (DE). Hún skrifaði einnig einleiksverk fyrir barrokk fiðlu sem samið var fyrir Höllu Steinunni Stefánsdóttir. Á árunum 2018-19 skrifaði Veronique Vaka Fiðlu konsert fyrir Unu Sveinbjarnardóttur og kammersveitina Caput sem var frumflutt á Myrkum Músíkdögum 2020 en nú leggur hún lokahönd á Konsert fyrir einleiks Selló og sinfóníuhljómsveit sem skrifaður er fyrir Sæunni Þorsteinsdóttir. Meðal þeirra verkefna sem framundan eru má nefna útgáfu hljóðrits af verkinu „Lendh“ með Sinfóníuhljómsveits Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar hjá plötufyrirtækinu Sono Luminus.

Veronique hefur fært sig nær óhlutbundinni nálgun að tónsmíðum þegar hún hóf að rannsaka „Yfirfærslu landslags til nótnaskriftar“. Markmið verka hennar er að skapa ljóðrænt samband þess sem hún sér, heyrir og skynjar í ósnortinni náttúru sem hún sameinar og vinnur úr í tónsmíðaferlinu. Verkin hennar einkennast af lífrænu flæði tónlistarinnar þar sem áhersla er lögð á smáatriði hvað varðar hryn, áferð og hljómblæ.
 


 

Tónlistarhópurinn ELEKTRA ENSEMBLE er skipaður fimm framúrskarandi tónlistarkonum. Í hópnum eru Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarinettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Hópurinn, sem var stofnaður árið 2008, var valinn Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2009 og gekk í kjölfarið til samstarfs við Listasafn Reykjavíkur um tónleikaröð á Kjarvalsstöðum sem stóð frá árinu 2009 til 2015. Helstu verkefni Elektra Ensemble hafa verið tónleikaröð á Kjarvalsstöðum, tónlistarflutningur á Myrkum músíkdögum, Kirkjulistahátíð, Óperudögum í Kópavogi, Halland Opera and Vocal Festival í Svíþjóð, í BOZAR-tónleikahöllinni í Brussel og á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í beinni sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum. Frá 2016 til 2019 var hópurinn hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar í Hörpu.

Elektra Ensemble hefur hlotið góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda auk þess sem RÚV hefur margsinnis hljóðritað leik hópsins. Auk þess að flytja helstu perlur tónbókmenntanna leggur hópurinn mikla rækt við frumflutning nýrra verka. Hópurinn hefur frumflutt verk eftir m.a. Helga Rafn Ingvarsson, Huga Guðmundsson, Kolbein Bjarnason, Þuríði Jónsdóttur, Þórð Magnússon, félaga í tónskáldahópnum Errata Collective og mörg önnur tónskáld. Í tilefni af 10 ára starfsafmæli Elektra Ensemble gaf hópurinn út hljómplötu með verkum sem samin hafa verið fyrir hópinn. Elektra Ensemble hefur notið styrkja frá Tónlistarsjóði og Reykjavíkurborg um árabil en einnig hlutu tónlistarkonurnar starfslaun listamanna árið 2016 fyrir starf sitt með hópnum. Hópurinn var valinn tónlistarflytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019.