Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Áfrýjun Lockerbie-sprengjumannsins tekin fyrir í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Málaferli sem ætlað er að snúa við dómi yfir Abdelbaset Mohmet Al-Megrahi að honum látnum, hefjast í Edinborg í Skotlandi í dag. Al-Megrahi var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2001 fyrir að hafa sprengt farþegaþotu bandaríska flugfélagsins Pan-Am í loft upp, yfir bænum Lockerbie í Skotlandi í desember1988.

Áætlað er að réttarhöldin standi í þrjá til fjóra daga en niðurstöðu verði að vænta síðar. 

Lögmaður fjölskyldu Al-Megrahis segir dóminn yfir honum hafa verið mesta réttarmorð breskrar sögu og að réttlætið hafi engin tímamörk. Fjölskyldurnar sem standi að áfrýjuninni hafi aldrei gefist upp á að leita sannleikans.

Lögmennirnir telja að óaðgengileg opinber gögn varpi ljósi á hvað raunverulega átti sér stað. Hæstiréttur Bretlands staðfesti á föstudag ákvörðun Dominic Raab utanríkisráðherra og forvera hans um halda þeim gögnum leyndum.

Að sögn utanríkisráðherrans gæti afhjúpun þeirra skaðað alþjóðatengsl og þjóðaröryggi Bretlands. Einkum tengist það baráttunni gegn hryðjuverkum og upplýsingaöflun leyniþjónustunnar.

Talið er að gögnin innihaldi sönnun þess að jórdanskur flugumaður á vegum Alþýðufylkingarinnar fyrir frelsi Palestínu (PFLP-GC) hafi sett saman sprengjuna sem grandaði þotunni. Alls fórust 270 í tilræðinu, þar af ellefu á jörðu niðri.

Al-Megrahi var sá eini sem dæmdur var fyrir þetta versta hryðjuverk í sögu Bretlands. Hann starfaði sem yfirmaður öryggismála hjá Libyan Arab Airlines og var útsendari Líbíustjórnar.

Muammar Gaddafi, þáverandi leiðtogi landsins, staðhæfði árið 2003 að líbísk stjórnvöld hefðu verið að verki. Hann þvertók þó fyrir að hafa fyrirskipað árásina sjálfur.

Spjót beindust þó löngum að PFLP-GC og að tilræðið hafi verið hefndarráðstöfun af hálfu Írana vegna þess að Bandaríkjamenn skutu niður íranska farþegaþotu skömmu áður.

Al-Megrahi var neitað um áfrýjun málsins árið 2002 en honum var sleppt úr haldi 2009 af heilsufarsástæðum. Þá sneri hann til Líbíu þar sem hann lést 2012.