Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

18 ára drengur í gæsluvarðhaldi fram í miðjan desember

24.11.2020 - 16:24
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir átján ára gömlum dreng sem er grunaður um samtals tíu vopnuð rán og tilraunir til vopnaðra rána. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því um miðjan október. Lögreglan taldi nauðsynlegt að málum hans yrði hraðað fyrir dómstólum þar sem hann væri ungur árum.

Brotahrina drengsins hófst í lok janúar þegar hann ógnaði tveimur ungum stúlkum með hníf fyrir utan veitingastað og reyndi að hafa þeim pening. 

Í júlí neyddi hann starfsmenn til að afhenda honum lyfið Sobril sem hann tók síðan á staðnum Hann var í framhaldinu fluttur á bráðamóttöku Landspítalans með sjúkrabíl.  Daginn eftir otaði hann járnkrók að fólki og reyndi að hafa af því pening og í september ógnaði hann foreldrum sínum með hníf á heimili þeirra og hafði af föður sínum greiðslukort.

Um miðjan október framdi hann síðan þrjú vopnuð rán með hníf.  Í einu þeirra var hann með grímu á andliti og fékk starfsmann verslunar til að afhenda sér 20 þúsund krónur. Daginn eftir hótaði hann að drepa ungan dreng og rændi af honum sígarettum eftir að hafa krafið hann um reiðufé. Næsta dag rændi hann síðan 20 til 30 þúsund krónum úr verslun. 

Þegar hann var handtekinn spurði lögregla hvað hann hefði gert við peningana. Lýsti drengurinn sér þá sem hálfgerðum Hróa hetti því hann hefði gefið vegfaranda í miðbænum reiðuféð. 

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu má sjá að drengurinn hefur játað flest af brotum sínum.  Rannsókn sé að ljúka og von á ákæru á næstunni.  Telja verði líklegt að hann haldi brotum sínum áfram gangi hann laus. Dómari benti á að drengurinn hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 18. október. Hann sé ungur að árum og því sé mikilvægt að meðferð mála hans verði hraðað.