
Undirbúa rýmingu SOS barnaþorps vegna átaka
Átökin hófust 4. nóvember og saka stjórnvöld í Addis Ababa Þjóðfrelsisfylkinguna um að hafa þá ráðist gegn höfuðstöðvum stjórnarhersins á svæðinu. Talsmenn Þjóðfrelsishreyfingarinnar hafna að hafa hún hafi staðið fyrir árásinni. Talið er að um 500 óbreyttir borgarar hafi fallið í átökunum, sem enn sér ekki fyrir endann á.
Frá því ófriður braust út hefur Tigray-héraði verið lokað af eþíópíska hernum sem og öllum samskiptaleiðum. Tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín og flestir farið yfir landamærin til Súdan. Að mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, þurfa um 2,3 milljónir barna á svæðinu á mannúðaraðstoð að halda.
Samkvæmt frétt á vef SOS barnaþorpanna eru samtökin reiðubúin til þess að rýma barnaþorpið í Makalle en illa hefur gengið að ná sambandi við barnaþorpið. Talið er að barist sé tæpa 50 kílómetra frá því þar sem þau eru staðsett. Í þorpinu búa 234 börn og ungmenni og eiga 38 þeirra SOS-styrktarforeldra hér á landi. Auk þess að reka barnaþorpið sinnir SOS fjölskyldueflingarverkefna á svæðinu.
„Ef ástandið versnar og átökin hafa bein áhrif á SOS-fjölskyldur þá munum við hefja rýmingu. Við höfum fengið grænt ljós á það frá UNOCHA, samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum,“ segir Sahlemariam Abebe, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna í Eþíópíu.
„Það síðasta sem ég heyrði frá okkar fólki í Makalle var að allir væru óhultir,“ segir Sahlemariam . Til þess að eiga samskipti við framkvæmdastjóra barnaþorpsins í Makalle hefur þurft að fara í gegnum starfsfólk Sameinuðu þjóðanna. Að sögn hans eiga SÞ nú í viðræðum við yfirvöld um aðgengi að Tigray-héraði fyrir hjálparsamtök.