Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Það er verið að mylja undir þá sem eiga“

Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands, segir þörf á greiningu á því hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hjálpar fólki og fyrirtækjum vegna kórónuveirunnar séu að fara til þeirra sem helst þurfi á að halda. Hún óttast að þetta ástand leiði til meiri samþjöppunar í atvinnulífinu og segir að þjóðin verði að hafa þolinmæði fyrir að skuldsetja sig einhver ár fram í tímann.

Drífa var gestur Kastljóss í kvöld.

„Við höfum sagt það allan tímann að það er algjör forsenda að tryggja kaupmátt þannig að fólk geti staðið við sínar skuldbindingar, að fólk geti haldið áfram að versla, að fólk hafi úr einhverju að moða - það er leiðin okkar út úr kreppunni,“ sagði Drífa.

Hún sagðist vera ánægð með að loksins væri verið að svara kalli verkalýðshreyfingarinnar um að fara inn í grunnstoðirnar. „En síðan má hinsvegar segja að þegar við erum að reyna að toga einhverja peninga út úr ríkiskassanum fyrir fólkið í landinu, þá er á sama tíma gefinn opinn tékki til fyrirtækjanna“ sagði Drífa. Hún sagði að mikil þörf væri á greiningu á því hvort þessi stuðningur væri að koma að notum hjá þeim fyrirtækjum sem helst þyrftu á að halda.

Drífa gagnrýndi frumvarp fjármálaráðherra um að hækka skattleysismörk fyrir fjármagnstekjuskatt og sagði að það gæfi þeim tekjuhæstu, þeim sem lifðu á fjármagnstekjum, 300.000 króna skattafrádrátt. Hún sagði að þegar skrifað var undir Lífskjarasamningana í apríl í fyrra hafi mikil áhersla verið lögð á að nýta skattkerfið til jöfnunar, frumvarp fjármálaráðherra væru í mótsögn við það.

„Ég held að fólk sé ekkert endilega til í þessi býtti“

Þá gagnrýndi Drífa lækkun bankaskattsins og sagði áætlað að ríkissjóður yrði af 7,7 milljarða tekjum vegna þessa sem að öðrum kosti gætu eflt velferðarkerfið. Hún sagði að enn gætti ekki þeirrar vaxtalækkunar sem átti að fylgja þessari aðgerð. Þarna væri ríkissjóður að segja sig frá milljarða tekjum og á sama tíma væri verið að gera hagræðingarkröfu á Landspítala upp á 4,3 milljarða. „Ég held að fólk sé ekkert endilega til í þessi býtti. Að segja sig frá þessum tekjum og skera niður í velferðarkerfinu á sama tíma.“

„Þetta verður stóra málið næstu mánuðina,“ sagði Drífa.

Óttast frekari samþjöppun

Hún sagðist óttast frekari samþjöppun í atvinnulífinu. Þá væri ástæða til að hafa áhyggjur af því að ríkisstjórnin forgangsraðaði ekki í þágu fjöldans. „Þegar maður setur þessar aðgerðir í samhengi, þá eru þarna ýmsar aðgerðir sem verða til þess að dýpka misrétti. Það er verið að mylja undir þá sem eiga í stað þeirra sem eiga ekki.“

Drífa sagðist vera sammála þeirri gagnrýni hagfræðinga um að aðgerðir hefðu ekki verið nægilega sértækar. Hún sagðist hafa áhyggjur af því að þeir miklu fjármunir, sem nú er  verið að veita inn í kerfið, væru ekki að renna í þá vasa þar sem þeirra væri helst þörf. Hugsanlega væru þeir að einhverju leyti að renna til fyrirtækja sem þyrftu ekki á aðstoð að halda. 

Margt ætti að vinna á móti verðhækkunum

Verðlagseftirlit ASÍ greindi frá því nýverið að matarverð hefði hækkað mikið það sem af er ári. Samtök verslunar og þjónustu hafa skýrt þetta með veikingu krónunnar. Drífa sagði að margt ætti að vinna á móti verðhækkunum, eins og til dæmis vaxtalækkanir. „Vissulega hækkar eitthvað þegar gengið gefur eftir en þegar það styrkist er ekki lækkað samsvarandi. Þannig að það er mikilvægt að neytendur fylgist vel með og standi fast í lappirnar.“

Drífa sagði að tölur Landsbankans um launaþróun í landinu sem sýna að þau hafa hækkað um 84% á timabilinu 2008-’19  gæfu ekki rétta mynd af þróun launa. Þjóðin hefði tekið á sig gríðarlegan kjaraskell eftir hrun og mörg ár hefði tekið að vinna hann upp. „Þetta er greinilega hannað til að gefa þá mynd að launafólk á Íslandi hafi fengið miklu, miklu meira en nokkurs staðar annars staðar og það er einfaldlega ekki rétt.“

Bjartsýn á horfurnar

Aðspurð sagðist Drífa vera bjartsýn á betri efnahagshorfur á næsta ári og að þessar aðgerðir myndu bera aðgerðir í þá átt og að atvinnuleysi myndi minnka. „En ég vil líka ítreka það að allar þessar aðgerðir sem er verið að gera núna geta verið mjög afdrifaríkar og verðum að hafa jöfnuð og jafnrétti að leiðarljósi.“

Hún sagðist hafa áhyggjur af sparnaðarkröfu á opinberar stofnanir og nefndi Landspítala og RÚV sem dæmi. „Við verðum að hafa þolinmæði til að skuldsetja okkur einhver ár fram í tímann og gefa okkur tíma til að koma okkur upp úr þessu.“

Leiðrétt: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var haft eftir Drífu að breytingar á fjármagnstekjuskatti færðu fólki sem lifði á fjármagnstekjum 300 þúsunda króna skattaafslátt á mánuði. Það var ekki rétt eftir haft, hið rétta er að breytingarnar miða við fjármagnstekjur á ársgrundvelli. Með þeim er frítekjumark fjármagnstekna hækkað úr 150 þúsund krónum á ári í 300 þúsund.