Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Sóttvarnalæknir tvisvar fengið leyfi til að eyða gögnum

Mynd með færslu
 Mynd:
Sóttvarnalæknir hefur í tvígang fengið heimild frá Þjóðskjalasafni, eftir að COVID-19 faraldurinn hófst hér á landi, til að eyða opinberum gögnum sem safnað hefur verið um fólk vegna smitrakningar þess.

Í annað skiptið var um að ræða staðsetningargögn sem safnað var með smáforriti á símtæki viðkomandi og í hitt skiptið var um að ræða upplýsingar sem sóttvarnalæknir hafði fengið frá útgefendum greiðslukorta.

Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um breytingar á sóttvarnalögum. Ekki er greint frá því hvers vegna þessum gögnum var eytt, en í greinargerðinni segir að Þjóðskjalasafn hafi í tvígang veitt sóttvarnalækni svokallaða grisjunarheimild.  Á vefsíðu safnsins segir að hún sé formleg heimild frá þjóðskjalaverði um að grisja megi gögn afhendingarskylds aðila og eyða þannig tilteknum gögnum úr skjalasöfnum. 

Í greinargerð frumvarpsins segir að tilteknar persónuupplýsingar, sem safnað sé vegna smitrakningar, séu undanþegnar varðveislu- og skilaskyldu samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn.  Í frumvarpinu er lagt til að sérstök heimild sóttvarnalæknis til að halda skrá yfir þá sem sæta sóttkví eða einangrun verði lögfest meðal annars til að tryggja yfirsýn yfir stöðu faraldursins og vegna réttinda fólks sem þarf að vera frá vinnu vegna þessa.