
Sigur í Michigan og Biden farinn að velja í ríkisstjórn
Á meðan síðustu ríkin klára talningu og endurtalningu undirbýr Biden sig undir stjórnarskiptin. Hann tilkynnti í dag sex einstaklinga sem fara með utanríkismál í nýrri ríkisstjórn.
Meðal þeirra eru John Kerry, fyrrverandi ráðherra sem verður ráðgjafi forsetans í loftslagsmálum, og Linda Thomas-Greenfield sem verður fyrsti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum af rómönskum uppruna.
Antony Blinken, einn helsti bandamaður Bidens, verður utanríkisráðherra og er ætlað að leiða Bandaríkin á ný inn í Parísarsamkomulagið.
We have gathered the most respected and qualified individuals to serve during our first National Security appointments. This group will put us on a path to restore our relationships abroad, and renew our safety here at home.pic.twitter.com/geWIRirste
— Biden-Harris Presidential Transition (@Transition46) November 23, 2020
Fleiri tilnefningar í ríkisstjórn eru væntanlegar í vikunni. Fjölmiðlar búast við að hin 74 ára gamla Janet Yellen verði skipuð fjármálaráðherra. Hún yrði þá fyrsta konan sem gegnir embættinu, en hún var áður bankastjóri Seðlabankans í Bandaríkjunum.
Donald Trump sést nú lítið opinberlega, þá helst á leið til og frá golfvellinum. Á meðan eru tilraunir lögfræðiteymis hans árangurslitlar, en dómari í Pennsylvaníu vísaði frá kröfu um að ógilda bæri sjö milljónir póstatkvæða í ríkinu. Frávísuninni hefur verið áfrýjað, en verði krafan ekki tekin til greina má segja að Trump verði endanlega kominn út í horn, því Pennsylvanía er lykillinn að því að hann telji sig fræðilega geta snúið niðurstöðum kosninganna sér í vil.