Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segja nemendur einangrast og ganga verr í náminu

23.11.2020 - 22:30
Mynd: MS / Menntaskólinn við Sund
Foreldrar nemenda í Menntaskólanum við Sund skora á skólann að hefja staðnám fram að jólaleyfi vegna vanlíðanar barna sinna og verri námsárangurs í fjarnámi. Þeir segja sömu reglur eiga að gilda um grunn- og framhaldsskólanemendur.

Rúmlega 100 foreldar nemenda í Menntaskólanum við Sund sendu áskorun á stjórnendur skólans í kvöld um að opna skólann að nýju fyrir nemendum fram að jólaleyfi. 

„Þeir eru búnir að sitja heima núna í langan tíma í fjarnámi og eiga ekki mikla von á að komast í skólann fljótt. Þetta er í rauninni einangrun, þau standa svolítið ein. Það er erfiðara að vera í fjölbrautakerfi en bekkjarkerfi,“ segir Vala Pálsdóttir, móðir nemanda við MS.

Í bréfi foreldranna til skólastjórnenda eru tekin dæmi um hvernig ástandið hefur haft neikvæð áhrif á nemendur. Einn nemandi féll í þremur fögum á haustönn en hafði gengið vel í námi fyrir það. Hann hyggst ekki vera í fullu námi til að ráða betur við ástandið.

Móðir annars nemenda hefur þurft að vera í hlutverki einkakennara og metur það svo að án þess stuðnings hefði barn hennar hætt í náminu.

Annar nemandi segir frá því að hafa horft á eftir systkini sínu fara í annan skóla sem býður upp á bóklegt nám í staðarnámi að hluta og finnist að skólanum sínum sé sama um sig.

Enn annar hittir núna enga skólafélaga og er kominn til sálfræðings. Fjölmargar sögur eru um nemendur sem hafa einangrast og líður illa.

Vala segir ljóst að yfirvöld þurfi að taka mið af þessu nú þegar smit hafa gengið niður.

„Landlæknir hefur sagt að krakkarnir eigi að vera í skóla og ég held að við þurfum að horfa á það þannig að framhaldsskólanemendur eru flest hver ennþá börn og þau eiga rétt á að vera í fræðslu og við þurfum eiginlega að hækka þennan aldur í stað þess að skorða þetta við grunnskóla að hafa framhaldsskólana með,“ segir Vala.