Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Munir tengdir Dylan seldust fyrir hálfa milljón dala

23.11.2020 - 01:47
Mynd með færslu
 Mynd: CC
Munir tengdir tónlistarmanninum og ljóðskáldinu Bob Dylan seldust fyrir hálfa milljón Bandaríkjadala á uppboði fyrir skemmstu. Hlutirnir voru úr dánarbúi tónlistarmannsins og vinar Dylans Tony Glover sem lést á síðasta ári.

Meðal þess sem selt var á uppboðinu voru persónuleg bréf frá Dylan, handskrifaður texti lagsins „Blowin' in the Wind“ og uppskrifað viðtal Glovers við Dylan sem hann páraði ahugasemdir sínar á.

Þar kemur meðal annars fram að Dylan hafi samið lagið „Lay Lady Lay“ fyrir söngkonguna Barbra Streisand en hingað til hefur verið álitið að það hafi verið samið sérstaklega fyrir kvikmyndina Midnight Cowboy frá 1969. Þegar Streisand bárust fréttirnar til eyrna kom hún af fjöllum og sagðist aldrei hafa vitað þetta.

Þeir vinirnir kynntust í Minneapolis þar sem Dylan stundaði skammvinnt háskólanám en Glover var fæddur og uppalinn þar í borg. Samkvæmt upplýsingum frá RR upphoðshúsi sem annaðist sölu munanna var Glover sá eini vinanna þaðan sem Dylan hélt nokkru sambandi við eftir að hann fluttist til New York borgar 1960.

Fulltrúi uppboðshússins sagðist líka gleðjast fyrir hönd aðstandenda Glovers en áhuginn á uppboðinu hefði sýnt mikilvægi hans fyrir sögu rokksins.