Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Laun á Íslandi með þeim hæstu í Evrópu

23.11.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Laun hérlendis, mæld í evrum, hafa hækkað mikið í samanburði við önnur ríki Evrópu eða um 84,4% frá 2008 til 2019 samkvæmt hagsjá Landsbankans. Á sama tíma hækkuðu laun um að meðaltali 28,7% innan ESB. Laun hér voru um 60% hærri í fyrra en þar.

Árið 2008 voru laun hér á landi þau 15. hæstu á Evrópska efnahagssvæðinu í evrum mæld en frá 2016 þau fjórðu til fimmtu hæstu. Árið 2012 voru þau að meðaltali jafn há og í ESB-ríkjum í evrum talið. 

Að sögn hagfræðideildar Landsbankans, sem gefur hagsjánna út, hefur krónan mikið um þetta að segja. Ísland sé lítið og opið hagkerfi með sjálfstæðan gjaldmiðil og af þeim sökum skipti gengi krónunnar miklu máli þegar samanburður er gerður við aðrar þjóðir, hvort sem um ræðir samanburð á launakostnaði eða verði á innfluttum varningi. Á þeim tíma sem um er rætt, 2008-2019, sveiflaðist gengi hennar frá 120 krónum fyrir eina evru upp í 173 krónur á evru en var að meðaltali um 147 krónur á evru. Þetta eru sveiflur um allt að því 20% í hvora átt.

Hagstæð launaþróun

Frá 2007 og til 2019 hækkaði vísitala launa á Íslandi um 99,6%, sem nemur að jafnaði sex prósentustiga hækkun á ári. Minnst hækkaði launavísitalan árið 2009 eða um 3,9% og mest árið 2016 eða um 11,4%. Frá 2008 til 2019 jókst kaupmáttur um 30% en öll sú kaupmáttaraukning er til komin frá árinu 2014, þar sem talsverður samdráttur var í kaupmætti á árunum eftir hrun.

Milli 2008 og 2019 hækkuðu laun ríkja ESB að jafnaði um 28,7% í evrum talið eða um 2,1% á ári. Hérlendis nam hækkunin 84,4% í evrum mælt eða að meðaltali 5,2% á ári. Stærstur hluti þessarar hækkunar varð frá 2012 eða 79 prósent. Á sama tímabili hækkuðu laun um 17% í Þýskalandi og lækkuðu í Noregi og Svíþjóð, um 11% og 3%. Þar hefur mest að segja gengi norsku og sænsku krónunnar, einkum þeirrar fyrrnefndu. Að sögn hagfræðideildar Landsbankans er ljóst að þróun launa hérlendis hefur verið afar frábrugðin þeirri í Noregi og Svíþjóð og segir hún vert að taka fram að „að þetta tímabil er nokkuð einstakt hér á landi hvað kaupmáttarþróun varðar.“

„Launastig hér á landi hefur augljóslega hækkað verulega á síðustu árum í samanburði við önnur Evrópuríki, mælt í sömu mynt. Þannig hefur kaupmáttur okkar gagnvart þessum ríkjum aukist mikið. Hin hliðin á þeim peningi er að kaupmáttur Evrópuríkja gagnvart okkur hefur minnkað sem að öllu jöfnu hefur áhrif á kaup Evrópubúa á vörum og þjónustu frá okkur, þar á meðal ferðaþjónustu“, segir að lokum í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV