Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kláfar yfir Jöklu við það að hrapa í ána

23.11.2020 - 08:57
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
Baldur Pálsson og Unnur Birna Karlsdóttir eru á ferð við Eiríksstaði á Efri-Jökuldal. Þau vinna nú að verkefni um menningarminjar á bökkum Jökulsár á Dal, eða Jökuslár á Brú, þar á meðal kláfum sem Jökuldælingar notuðu öldum saman til að komast yfir Jöklu.

Vilja friða og bjarga kláfunum sem eftir eru

Landinn slóst í för með Baldri og Unni Birnu til að skoða nokkra kláfa. „Þetta eru merkilegar samgönguminjar í sögu Íslands. Það er mikilvægt að atriði að friða þá og varðveita og helst bjarga þessum eina sem er hér í upprunalegri mynd við Eiríksstaði,“ segir Unnur Birna. Sá við Eiríksstaði hangir enn yfir ánni illa farinn, hann er á hlöðunum stoðum og með spantré.

Það var hversdagslegt að nota kláfana

Fram til ársins 2006 áður en Jökulsá á Dal var virkjuð með Kárahjúkavirkjun var áin beljandi stórfljót og gat því verið íbúum beggja vegna hennar mikill farartálmi. Kolbrún Sigurðardóttir, ábúandi á Grund á Jökuldal, bjó í Teigaseli sem barn og notaði Teigaselskláfinn fyrst ein þegar hún var um tólf ára gömul til að passa börn handan árinnar.

Í rituðum heimildum frá 16. öld

Í Íslandslýsingu Odds biskups Einarssonar frá sextándu öld er minnst á kláfa en á tuttugustu öld leystu vegir, bílar og brýr kláfana smám saman af hólmi og kláfurinn yfir Jöklu við Merki var sá síðasti sem tekinn var úr notkun þegar ný brú var byggð þar yfir ána árið 1975 en kláfurinn er stærri en þeir gömlu og á steyptum stoðum.

Samgöngumáti sem mótaði samfélagið

Nokkrir gömlu kláfanna voru komnir á steyptar stoðir á síðustu árum sínum í notkun eins og sá við Brú á Jökuldal. Faðir Baldurs fór eitt sinn með eldri kláfnum þar í ána en tókst að bjarga sér úr henni á sundi, sem var nær óþekkt. „Þetta eru menningarminjar sem eru að hrapa í ána og það er kannski bara á næsta ári sem að enginn kláfur verður uppistandandi,“ segir Baldur.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður