Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kæru vegna kröfubréfs í meiðyrðamáli vísað frá

23.11.2020 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Creative commons
Kona, sem kærði lögmann til úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins, sagði foreldra sína og systur hafa upplifað framgöngu hans sem handrukkun eftir að hann kom sjálfur og afhenti kröfubréf í meiðyrðamáli. Úrskurðarnefndin vísaði málinu frá þar sem kæran barst of seint. Þá taldi hún lögmanninn ekki hafa brotið gegn siðareglum lögmanna þegar meiðyrðamálið var fyrir dómi.

Málið er flókið og teygir sig aftur til ársins 2018 þegar konan kvartaði til fagráðs Háskóla Íslands vegna meintra kynferðisbrota samnemanda síns frá árinu 2015.  Lögmaðurinn gætti hagsmuna samnemandans fyrir fagráðinu sem lauk aðkomu sinni með þeirri umsögn að ekki væri hægt að komast að niðurstöðu í málinu.

Samnemandinn fór í millitíðinni fram á að konan drægi til baka ummæli sín fyrir fagráðinu, vildi að hún bæðist afsökunar og fór fram á tvær milljónir í miskabætur. Annars yrði höfðað dómsmál. Lögmaður mannsins afhenti bréfið sjálfur en konan hafnaði kröfunni og því fór málið fyrir dóm. 

Réttarhaldi var hins vegar frestað eftir að konan kærði manninn til lögreglu fyrir meintu kynferðisbrotin.  Taldi dómari rétt að bíða eftir niðurstöðu rannsóknarinnar. Maðurinn lést áður en aðalmeðferð í meiðyrðamálinu gat farið fram. Lögmaður dánarbú hans tók í framhaldinu við málinu eftir að hafa fengið til þess leyfi hjá foreldrum hans. Konan var síðan sýknuð í meiðyrðamálinu með dómi héraðsdóms í sumar.

Konan sagði í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar að lögmaðurinn hafi afhent systur hennar kröfubréfið.  Og að systurinni og foreldrum þeirra hafi verið verulega brugðið við að fá bréfið með þessum hætti.  Hafi þau upplifað framgöngu lögmannsins eins og handrukkun. Þá sagðist konan hafa flutt þrívegis af ótta við fleiri heimsóknir frá lögmanninum, henni hafi liðið eins og öryggi hennar væri ógnað. Þá hefði fjölskylda hennar átt erfitt vegna þessa. Hún hafi reynt að fá manninn til að bera ábyrgð á því sem hafi gerst á milli þeirra og aldrei farið fram á að honum yrði vísað úr skóla heldur eingöngu ætlast til þess að hann sýndi henni lágmarkstillitsemi.

Lögmaðurinn hafnaði málatilbúnaði konunnar og sagði kvörtun hennar vegna kröfubréfsins of seint fram komna.  Hann sagðist hafa afhent kröfubréfið á heimili konunnar þar sem þau hefðu þá búið í sama í sveitarfélagi. Engin frekari samskipti hafi átt sér stað af þessu tilefni við fjölskyldu hennar, hvorki fyrr né síðar. Þá hafnaði hann því að málareksturinn gegn henni hefði verið tilefnislaus. Skjólstæðingur hans hafi talið að hún hefði gerst sek um ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru með því að leita til fagráðsins og ásaka hann um kynferðisbrot.

Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að kæra konunnar vegna kröfubréfsins væri of seint fram komin. Meira en ár hafi verið liðið frá því að það var sent og móttaka þess staðfest. Þá hafnaði nefndin því að lögmaðurinn hefði gerst brotlegur gagnvart konunni við rekstur meiðyrðamálsins. Hann hafi hvorki sýnt henni óvirðingu né beitt hana ótilhlýðilegum þvingunum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV