„Hægt að gera svo mikið með hjarta og fólki sem trúir“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV

„Hægt að gera svo mikið með hjarta og fólki sem trúir“

23.11.2020 - 14:54
Elísabet Gunnarsdóttir var í gær valin þjálfari ársins í sænsku úrvalsdeildinni, og fékk þar að auki heiðursverðlaun fyrir störf sín í þágu sænskrar kvennaknattspyrnu. Hún segir leiðina á þennan stað hafa verið krefjandi en hún hafi alltaf haft trú á liðinu sínu.

Elísabet hefur þjálfað sænska úrvalsdeildarliðið Kristianstad síðustu 11 ár. Þar á undan stýrði hún meðal annars ÍBV, Breiðablik og Val hér heima. Hún stýrði kvennaliði Vals til fjögurra Íslandsmeistaratitla, og fór til Svíþjóðar árið 2009. Í ár hafnaði Kristianstad í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar og komst með því í Meistaradeild Evrópu. Þetta er besti árangur liðsins undir hennar stjórn, og í gær var hún valin þjálfari ársins í úrvalsdeild kvenna í Svíþjóð, og þar að auki fékk hún heiðursverðlaun fyrir störf sín í þágu sænskrar kvennaknattspyrnu.

Áttaði sig ekki á því fyrir hvað hún var verðlaunuð

Verðlaunin komu henni „Og svo var ég mjög ringluð þegar það voru komin einhver önnur verðlaun þarna líka, ég botnaði ekkert í því,“ segir Elísabet í samtali við RÚV. Hún segist hafa orðið mjög hrærð í kjölfarið.  „Ég áttaði mig ekki alveg á því hvaða verðlaun þetta voru þegar þau komu mér á óvart þarna í beinni útsendingu. Ég sá allt í einu bara Margréti [Láru Viðarsdóttur] að tala eitthvað og einhverja leikmenn sem ég hef þjálfað svo ég vissi ekkert út á hvað þetta gekk. Þegar ég kíkti á þetta eftir á og áttaði mig á því að ég hefði fengið heiðursverðlaun þá var ég ótrúlega hrærð því þetta snérist bara um það að þeim finnist ég hafa unnið svona gott og mikilvægt starf fyrir kvennafótboltann í Svíþjóð í heild sinni og deildinni og það er auðvitað bara frábært að taka á móti svona verðlaunum.“

„Fólki fannst þetta mjög óraunhæft“

Elísabet hefur þjálfað Kristianstad í 11 ár og verkefnið hefur verið krefjandi. „Þetta er ótrúlega sérstök saga í rauninni því þetta er ótrúlega lítill klúbbur í litlum bæ og ég kem hingað með einhver risa markmið og segi við alla hérna fyrsta árið að við ætlum að vinna deildina og spila í Meistaradeildinni,“ segir hún.

Ekki hafi allir verið jafn sannfærðir um að það myndi ganga upp. „Fólki fannst þetta bara mjög óraunhæft og mjög margir sem hafa sagt við mig á leiðinni að þetta muni aldrei ganga upp og við séum bara of lítil til að geta náð svona markmiðum. Mjög margir hafa sagt við mig, sem standa mér nærri, að ég sé búin að vera að hjakkast í sömu förunum og það sé ekkert að gerast,“ segir Elísabet.

Hún hafi þó ekki verið á sama máli. „Ég hef einhvernveginn sjálf haft ótrúlega mikla trú á því í gegnum þetta allt saman að við getum náð árangri með þetta litla félag þó við séum ekki ríkasta félagið í bransanum. Það er hægt að gera svo ótrúlega mikið með hjarta og fólki sem trúir á það sem maður er að gera. Það er það sem gerir mig svo ótrúlega glaða og stolta í augnablikinu það er að það eru svo margir búnir að trúa á þetta saman, og vera lengi saman, allt frá leikmönnum og þjálfurum og fólki í kringum liðið. Þó svo að ég fái verðlaun í gær þá eru við mjög mörg sem deilum þessum verðlaunum saman,“ segir Elísabet.

Hefur hugsað um að taka næstu skref

En 11 ár er nokkuð langur tími sem þjálfari félagsliðs. Hefur hún ekkert hugsað um að færa sig um set? „Ég skal bara vera alveg hreinskilin og segja að ég hef síðustu 2-3 árin hugsað næstu skref og hef alveg fundið fyrir því að það væri komin einhver þreyta í þetta og bæði að ég myndi vilja taka næstu skref og félagið þyrfti á einhverjum nýjum leiðtoga að halda,“ segir hún.

Hún er þó ekki alveg til í að sleppa takinu á þessari stundu. „En eftir þetta ár þá finn ég bara að við getum gert meira. Við erum að fara spila í Meistaradeildinni sem var stóri draumurinn, sem fáir trúðu á og við sem höfum náð þessum árangri saman ætlum að spila saman í Meistaradeildinni á næsta ári þannig ég skrifa undir eins árs samning núna svo sé ég bara til eftir ár,“ segir Elísabet Gunnarsdóttir að lokum.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Fékk heiðursverðlaun fyrir vel unnin störf

Fótbolti

Elísabet þjálfari ársins í Svíþjóð