Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Glæfralegur framúrakstur skömmu fyrir banaslys

23.11.2020 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: Auður Eiríksdóttir
Ökumaður jeppabifreiðar, sem keyrði aftan á Suzuki-jeppling á Þingvallavegi í júní fyrir tveimur árum, ók fram úr röð bíla án þess að ganga úr skugga um að það væri hægt án hættu gagnvart umferð á veginum. Þá var jeppanum ekið töluvert yfir hámarkshraða. Þetta er niðurstaða rannsóknarnefndar samgönguslysa á slysinu þar sem 81 árs gömul kona lést. Vitni greindu frá glæfralegum framúrakstri jeppans og bíls sem var á undan jeppanum skömmu fyrir slysið.

Í skýrslu nefndarinnar um slysið kemur fram að ökumaður Suzuki-jepplingsins hafi verið að aka vestur Þingvallaveg. Tveir voru í bílnum, ökumaður og farþegi í framsæti. Við vegamótin við Æsustaðaveg ætlaði ökumaðurinn að taka vinstri beygju; hann hægði ferðina og gaf stefnuljós til vinstri. 

Á sama tíma var jeppa ekið í sömu átt á talsverðri ferð fyrir aftan bílaröðina. Vitni greindu nefndinni frá því að jeppanum hafi verið ekið á eftir öðrum jeppa og að þeim hafi báðum verið ekið af töluvert meiri hraða en annarri umferð á veginum.  Þá greindu vitni einnig frá „glæfralegum framúrakstri“ hjá ökumönnum  jeppanna áður en slysið varð. 

Nefndin segir í skýrslunni að rétt fyrir slysið hafi báðum jeppunum verið ekið fram úr nokkrum bílum. Ökumaður fremri jeppans hægði á sér og fór yfir á réttan vegarhelming en hinn jeppinn hélt framúrakstrinum áfram og ók harkalega á Suzuki-jepplinginn.

Höggið var það mikið að jepplingurinn kastaðist áfram og endaði ofan í skurði vinstra megin við veginn. Jeppinn rann áfram og endaði á ljósastaur hægra megin. Farþeginn í Suzuki-bifreiðinni, sem var með öryggisbeltið spennt, kastaðist í aftursæti bílsins og lést af völdum áverka.  Talið er að hann hafi runnið út úr öryggisbeltinu í árekstrinum.  Ökumaður jepplingsins var einnig spenntur í belti og hlaut mikil meiðsl. Ökumaður jeppans slasaðist sömuleiðis.

Samkvæmt útreikningum nefndarinnar var jeppanum ekið á 102 til 124 kílómetra hraða rétt áður en hann lenti aftan á jepplingnum.  Leyfilegur hámarkshraði er 70 kílómetrar á klukkustund.

Skömmu eftir slysið bannaði Vegagerðin framúrakstur á þessum kafla. Íbúar í Mosfellsdal höfðu kvartað lengi yfir of miklum umferðarhraða og ítrekað kallað eftir úrbótum.  Rannsóknarnefndin hrósa Vegagerðinni fyrir að grípa til aðgerða og segir þessa breytingu hafa verið til mikilla bóta fyrir umferðaröryggi á þessum kafla. Þó er Vegagerðin hvött til að flýta framkvæmdum við tvö hringtorg sem fyrirhugað er að setja við Æustaðaveg og Helgardalsveg.