Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjórði hver Svíi vill ekki bólusetningu

23.11.2020 - 09:37
epa08809869 A sign reminding people to keep a distance at the Central station in Stockholm, Sweden, 09 November 2020. The Swedish Public Health Agency has decided on stricter advice for, among others, region Stockholm in order to slow down the spread of Covid-19 corona virus SARS CoV-2.  EPA-EFE/Amir Nabizadeh SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT
Fjórði hver Svíi vill ekki láta bólusetja sig við kórónuveirunni. Ástæðan er fyrst og fremst ótti við aukaverkanir, að því er kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem gerð var fyrir fréttaþáttinn Agenda í sænska sjónvarpinu.

Stjórnandi könnunarinnar segir að þótt niðurstaðan sé sú að margir séu tilbúnir að láta bólusetja sig sé svínaflensan og aukaverkanir af bóluefni gegn henni enn þá mörgum í fersku minni. Frá því að Svíar voru spurðir um afstöðu til bóluefnis við kórónuveirunni í ágúst hefur þeim fjölgað sem eru tilbúnir að láta bólusetja sig og þeim fækkað sem vilja ekki þiggja bólusetningu. 

Stjórnvöld í Svíþjóð hafa gripið til harðra aðgerða til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Stefan Löfven forsætisráðherra sagði í sjónvarpsávarpi í gærkvöld að landsmenn yrðu að gera mun meira til að útrýma henni. Hann bað fólk um að hætta við eða fresta öllu sem ekki væri bráðnauðsynlegt þar til ástandið yrði komið í samt lag. Yfir sex þúsund væru þegar látnir af völdum COVID-19 og enn stefndi þróunin í ranga átt.