
Félag Íslendinga og Þjóðverja keypti Hjörleifshöfða
Mýrdalssandur ehf hefur meðal annars þurrkað sand sem hefur verið fluttur út til sandblásturs. Að sögn Ólafs hyggja nýir eigendur Hjörleifshöfða á slíka vinnslu á jörðinni.
Jörðin Hjörleifshöfði er um 11.500 hektarar og Ólafur segir að verðhugmyndin hafi verið á bilinu hálfur til einn milljarður króna.
„Jörðin hafði verið lengi til sölu og allnokkrir sýnt áhuga á þessum tíma,“ segir Ólafur. Hann segir að salan sé nú í þinglýsingarferli en staðfestir að jörðin hefði selst á rúmlega hálfan milljarð.
Á vef Kötlu Geopark segir um Hjörleifshöfða að hann sé 221 metra hár móbergsstapi á suðvestanverðum Mýrdalssandi. Hjörleifshöfði er landnámsjörð og fékk nafn sitt frá landnámsmanninum Hjörleifi Hróðmarssyni, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar. Þeir fóru á sitt hvoru skipinu til Íslands en urðu viðskila þar sem Ingólfur hafði vetursetu við Ingólfshöfða en fóstbróðirinn á Hjörleifshöfða.
Búið var á Hjörleifshöfða fram að árinu 1936 á bæ staðsettum á syðri hluta höfðans, en sá var fluttur þangað eftir gosið í Kötlu 1721 sem eyddi gamla bænum.