Vlhóva tvöfaldur sigurvegari í Levi

22.11.2020 - 15:05
epa08835716 Second placed Michelle Gisin of Switzerland (L), winner Petra Vlhova of Slovakia (C) and third placed Katharina Liensberger of Austria (R) celebrate on the podium for the Women's Slalom race at the FIS Alpine Skiing World Cup in Levi, Finland, 22 November 2020.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
 Mynd: EPA-EFE - COMPIC
Önnur heimsbikarkeppni helgarinnar hjá konunum fór fram í Levi í Finnlandi í dag. Líkt og í gær var keppt í svigi.

Það var sigurvegarinn frá því í gær, slóvakíska Petra Vlhová sem fór fyrst í brautina í morgun og átti hún frábæra fyrri ferð. Hvorki Mikaela Shiffrin né Katharina Liensberger sem enduðu á palli með Vlhovu í gær náðu að toppa tímann hennar. En með rásnúmer fimm var Michelle Gisin frá Sviss. Gisin fór af miklum krafti í gegnum brautina í Levi og svo fór að hún kom niður á nákvæmlega sama tíma og Vlhová, hreint ótrúlegt.

Í seinni ferðinni var Gisin á undan og átti hún aðra góða ferð, þá var röðin komin að Vlhovu sem skákaði Mikaelu Shiffrin í gær. Vlhová fór frábærlega í gegnum brautina og vann annan sigur sinn í heimsbikarnum þessa helgina og þann sextánda í heildina. Hún kom í mark 31 hundraðshlutum úr sekúndu á undan Gisin, í þriðja sætinu varð svo líkt og í gær, Katharina Liensberger frá Austurríki.

Mikaela Shiffrin náði sér ekki á strik í dag en hún endaði í fimmta sæti keppninnar tæpri sekúndu á eftir Vlhovu.

Næsta heimsbikarkeppni hjá konunum fer fram um næstu helgi en þá er keppt í samhliðasvigi í Austurríki.

gunnar.birgisson's picture
Gunnar Birgisson
íþróttafréttamaður