
Síðastliðinn mánudag tilkynnti BBVA, næst stærsti banki Spánar mögulegan samruna við þann fimmta stærsta Banco Sabadell. Sá sameinaði banki yrði áfram næst-stærstur.
Liberbank og Unicaja hafa verið í viðræðum um sameiningu frá því í október. Sameining banka er ekkert nýtt á Spáni en eftir efnahagshrunið 2008 runnu tugir smærri lánastofnana saman við stærri einingar.
Xavier Vives við Viðskiptaháskólann í Barcelona segir í samtali við AFP fréttastofuna að sameiningarnar nú séu til að verjast vandræðum í framtíðinni. Þó segir hann ágóða af bankastarfsemi ekki mikinn á tímum kórónuveirukreppunnar, enda erfitt að græða þegar vextir eru neikvæðir.
Jafnramt standa hefðbundnir bankar frammi fyrir harðri samkeppni frá bönkum sem eingöngu starfa á netinu og bjóða ekki upp á kostnaðarsama þjónustu á borð við útibúanet.