Skosku tvíburarnir sem gengu 500 mílur

Mynd með færslu
 Mynd: The Proclaimers - YouTube

Skosku tvíburarnir sem gengu 500 mílur

22.11.2020 - 16:17

Höfundar

Stórsmellirnir röðuðu sér upp á íslenska vinsældalistann í nóvember 1988. Enginn gerði þó betur en rauðhærði tvíburadúettinn frá Skotlandi en The Proclaimers sátu í efsta sæti listans. Lög úr stórmyndinni Cocktail voru áberandi á listanum sem og lög úr kvikmyndinni Buster þar sem Phil Collins fór með aðalhlutverkið.

Ellismellir eru á dagskrá Rásar 2 á sunnudögum þar sem ferðast er aftur í tímann og vinsældalistar fyrri ára eru skoðaðir. Þennan sunnudaginn er það íslenski vinsældalistinn í nóvember árið 1988 sem við skoðum.

Íslensk lög voru að sjálfsögðu áberandi á listanum, topplag listans nokkrum vikum fyrr, „Foxtrot“ með Bubba sat í sautjánda sæti, í því fjórtánda sat Eggert Þorleifsson með lagið „Ógeðslega ríkur“ og Bítlavinafélagið var í því þrettánda með lagið „Það er svo undarlegt með unga menn.“ Írar áttu sína fulltrúa á listanum, U2 og söngkonuna Enyu með einn af sínum stærstu smellum, „Orinoco Flow“. Lag sem sat lengi á íslenska listanum og náði toppsætum á vinsældalistum um allan heim.

Kvikmyndin Cocktail hafði komið út sumarið 1988 og notið mikilla vinsælda. Í henni mátti sjá Tom Cruise hrista kokteila eins og enginn væri morgundagurinn og kasta flöskum og glösum eins og ekkert væri eðlilegra. En tónlistin úr myndinni varð ekki síður vinsæl og tvö lög úr henni sátu raunar á íslenska listanum þessa vikuna. Lagið „Don't Worry, Be Happy“ með Bobby McFerrin sat í níunda sæti listans en það er einmitt fyrsta „a capella“ lagið sem náði efsta sæti á bandaríska Billboard listanum. Hitt lagið sem var að finna á íslenska listanum þessa vikuna var sumarsmellurinn „Kokomo“ með Beach Boys. 

Phil Collins hafði verið að gera góða hluti þetta árið og lék meðal annars aðalhlutverkið í kvikmyndinni Buster. Í sjötta sæti listans sat einmitt lag úr þeirri mynd, „Groovy Kind of Love.“ UB40 sátu í fimmta sæti með lagið „Where Did I Go Wrong“ og í þriðja sæti var hljómsveitin Travelling Wilburys með sitt fyrsta lag, „Handle With Care“. Maðurinn í öðru sæti var svo ekkert smánafn, í það minnsta ekki á Íslandi eða í heimalandinu, Danmörku, sjálfur Kim Larsen sat með lagið „De Smukke Unge Mennesker“.

Skosku tvíburabræðurnir Charlie og Craig Reid stofnuðu hljómsveitina The Proclaimers árið 1983 og hafa í gegnum tíðina verið pólitískir í list sinni, til að mynda talað fyrir sjálfstæði Skotlands. En þetta ár, 1988, kom út þeirra allra vinsælasta lag, „I'm Gonna Be (500 miles)“. Lagið hafði komið til Craig árið á undan þegar hann var að bíða eftir að fara á fótboltaleik í Aberdeen. Sjálfur segist hann muna eftir að hafa setið við píanóið og hugsað hversu mörg skref væru yfir í nýja kennslustofu á svæðinu. Lagið varð til á 45 mínútum og Craig bjóst aldrei við því að það yrði jafn vinsælt og raun bara vitni, en vinsælt varð það nú samt og komst meðal annars á toppinn á íslenska listanum þessa vikuna árið 1988.