Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Reiðubúin til samstarfs um rannsókn á Arnarholti

22.11.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Velferðarnefnd ræðir aðbúnað fatlaðs fólks á morgun. Forsætisráðherra segist vera reiðubúin til samstarfs um rannsókn þess efnis, hvað þarf til í slíka rannsókn ráðist af umfanginu og hvernig hún verður afmörkuð.

Á dagskrá velferðarnefndar Alþingis á morgun er umræða um aðbúnað og meðferð fullorðins fatlaðs fólks með þroskahömlun og fullorðinna með geðrænan vanda. Formaður velferðarnefndar hefur sagt nefndarmenn einhuga um að ráðast þurfi í rannsókn á aðbúnaði þessa hóps í gegnum árin en skiptar skoðanir eru á hvort sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis eigi að sjá um úttektina eða nefnd á vegum forsætisráðuneytisins.  

„Ég lít nú svo á að það sé eðlilegt að velferðarnefnd ljúki sinni umræðu um þetta mál en forsætisráðuneytið er reiðubúið til samstarfs,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. 

Katrín segir eðlilegt að það fari fram rannsókn á Arnarholti. „Við höfum verið að leggja mat á það hvað þyrfti til ef ráðast á í rannsókn og það ræðst mjög mikið á umfangi hennar og hvernig hún yrði afmörkuð. Þannig við höfum verið að skoða málið en bíðum þess og sjáum hvaða niðurstöðu bæði Reykjavíkurborg og Alþingi komast að með frekari rannsóknir á málinu,“ segir hún.

„Eftir að málið kom upp og í kjölfar minna samskipta við Reykjavíkurborg og Alþingi, þá höfum við fyrst og fremst verið að safna saman því sem gert hefur verið. Fara yfir reynsluna af lögunum um vistheimilanefndina og þær rannsóknir sem hún stóð fyrir,“ segir Katrín.