Halldór Jóhann nýr landsliðsþjálfari Barein

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Halldór Jóhann nýr landsliðsþjálfari Barein

22.11.2020 - 10:41
Handboltaþjálfarinn Halldór Jóhann Sigfússon hefur verið ráðinn þjálfari Barein fram yfir heimsmeistaramótið í janúar. Halldór Jóhann tekur við liðinu af Þjóðverjanum Michael Roth sem lét skyndilega af störfum. Áður höfðu Aron Kristjánsson og Guðmundur Guðmundsson þjálfað liðið.

Það er handbolti.is sem greinir frá þessu í morgun. 

Ráðning Halldórs var ekki lengi í afgreiðslu, atburðarrásin hófst þegar Michael Roth hætti á dögunum eftir að hafa tekið við liðinu af öðrum Íslendingi, Aroni Kristjánssyni. Halldór þekkir vel til leikmanna Barein en hann vann með Aroni í hans verkefni með A-landsliðið samhliða því að hann sá um 20 ára lið landsins. Um tímabundna ráðningu er að ræða en Halldór stýrir liðinu fram yfir HM í janúar á næsta ári.

Halldór er sem stendur þjálfari Selfoss í efstu deild karla og heldur áfram í því starfi, hann segir að hann hafi fundið fyrir stuðning frá félaginu við að taka þessa ákvörðun.

„Forráðamenn Handknattleiksdeildar Selfoss tóku vel í málaleitan mína að mega taka að mér þetta tímabundna verkefni með skömmum fyrirvara. Þeir vildu ekki leggja stein í götu mína, ekki síst í ljósi aðstæðna hér heima. Ef eðlilegt ástand ríkti hér á landi og handboltinn væri á fullri ferð þá hefði ég afþakkað tilboðið frá Barein,“ sagði Halldór í samtali við handbolta.is.