Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fleiri hjartaslög og heilablóðföll í miklu svifryki

22.11.2020 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Innlögnum fjölgar á spítala og hjartaslögum og heilablóðföllum fjölgar þegar svifryk er mikið, segir Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Um sextíu til áttatíu dauðsföll árlega hafa verið rakin til þessa.

„Það hefur sýnt sig í rannsóknum að þá daga sem er hærra svifryk þá eru hreinlega fleiri innlagnir á spítala. Ekkert endilega út af öndunarfærasjúkdómum heldur út af hjarta- og æðasjúkdómum,“ sagði Þorsteinn í Silfrinu í dag. „Það verða fleiri heilablóðföll, það verða fleiri hjartaáföll þá daga sem er hátt svifryk og viðvarandi. Það eru andlitslaus og númerslaus tilfelli.  Ekki eins og í COVID-inu. Þá vitum við að þessi fékk COVID. Við getum ekki sagt þó við sjáum hækkun í hjartaáföllum, til dæmis, hverjir fengu hjartaáfall út af svifrykinu og hverjir hefðu hvort eð er fengið það.“

Þorsteinn segir að staðan hér sé betri en víða erlendis. Svifryk hefur þó ýmis áhrif. „Það hefur sýnt að börn sem alast upp í mikilli mengun nærri umferðaræðum eru líklegri til að vera með asma þegar þau verða fullorðin og jafnvel sem börn. Þannig að þetta hefur áhrif.“

Svifryk er aðallega vegryk sem þyrlast upp af yfirborði vega, segir Þorsteinn. Samkvæmt rannsóknum er slit af völdum bíls á nagladekkjum tuttugu til fjörutíu sinnum meira en slit af völdum annarra bíla. „Til þess að setja það í samhengi: Ef fimm prósent bíla eru á nöglum þá eru þeir að slíta jafn mikið og hin 95 prósentin sem ekki eru á nöglum,“ segir Þorsteinn og miðar þá við lægri viðmiðin. Að hver bíll á nagladekkjum slíti malbiki á við 20 bíla sem ekki eru á nagladekkjum.