Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Samkomutakmarkanir hafa áhrif á aldursdreifingu smita

21.11.2020 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aldursdreifing þeirra sem eru í einangrun með COVID-19 hefur breyst á síðustu vikum fyrir tilstilli hertra samkomutakmarkana. Nú eru flestir í einangrun á aldrinum 50-59, en við upphaf þriðju bylgjunnar voru flestir á aldrinum 18-29 ára.

Smitin ekki lengur rakin til skemmtistaða og háskóla

Breytingin skýrist fyrst og fremst af því að vegna hertra samkomutakmarkana eru smitin ekki lengur helst rakin til skemmtistaða, líkamsræktarstöðva og háskóla. Flest þau smit sem greinast nú eru rakin til vinnustaða og fjölskyldna. Þetta kemur fram í svari almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra við fyrirspurn fréttastofu og byggist á upplýsingum frá tölfræðiteymi embættis landlæknis og smitrakningarteymi. 

Stærsti hópurinn í einangrun er á aldrinum 50-59 ára, alls fjörutíu og fjórir, og næst stærsti hópurinnn er á aldrinum 30-39 ára. Þriðji fjölmennasti aldurshópurinn er á bilinu 40-49 ára. Átta á aldrinum 80-89 ára eru í einangrun og einn yfir níræðu. Tvö börn undir eins árs aldri eru með virkt smit og níu á aldrinum 1-5 ára. 

Við upphaf þriðju bylgjunnar var stærsti hópurinn sem greindist smitaður á aldrinum 18-29 ára, enda voru hópsmitin sem komu bylgjunni af stað fyrst og fremst rakin til skemmtistaða í Reykjavík, líkamsræktarstöðva, Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands. 

Tími í einangrun lengist með aldri

Í svari við fyrirspurn fréttastofu um það hversu lengi fólk þarf að vera í einangrun eftir aldri, kemur fram að tíminn lengist eftir því sem fólk eldist. Börn og ungir þurfa að vera að jafnaði í 14-15 daga í einangrun, fólk á aldrinum 40-79 ára þarf að vera í 16-17 daga í einangrun og fólk yfir áttræðu allt að 21 dag.