Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Margir í miðbænum en enginn í jólagjafakaupum

21.11.2020 - 20:52
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Miðborg Reykjavíkur iðaði af lífi í dag og ljóst að hugsanir um kórónuveirufaraldurinn eru ekki lengur einvaldur. Margir kíktu í búðir eða að minnsta kosti í búðarglugga en hins vegar fór lítið fyrir því að fólk væri í jólagjafahugleiðingum. Það var algengara var að tilefnið væri heilsubótarganga.

Þriggja stiga hiti og logn í nóvember er nokkuð sjaldgæft og margir ákváðu að upplifa þessar einkennilegu kringumstæður og smelltu sér í göngu upp eða niður Laugaveginn.

Hvert er erindið í bæinn?

„Bara að skoða og njóta þess að fara út meðan það er svona gott veður ennþá og enginn snjór til að trufla mig. Annars væri bara ófært fyrir mig,“ segir Sonja Sigurðardóttir. Hún nýtti tækifærið í hlýindunum enda greiðfært fyrir hjólastólinn þar sem Laugavegurinn var marauður, þ.e.a.s. snjólaus. Nóg var hins vegar af fólki. 

Helga Benediktsdóttir kom til þess að ganga um á hálkulausu svæði. „Ég er ekki að fara inn í búðir. Það er svo mikil hálka úti í hverfunum.“

Ragnar Kjartansson og dóttir hans nutu veðurblíðunnar. „ Við erum bara að spássera í bænum alveg yndislegt. Ætli þetta sé ekki bara með fjölförnustu gatnamótum í heimi bara í dag - Á þessum skrýtnu tímum? Já.“ Þannig að þið eruð ekkert farin að spá í jólagjafirnar? „Nei, ekki alveg svona. Betra að hafa þetta í svolitlu stressi.“

Hildur Katla Ernisdóttir klæddi sig í silfurglansandi kjól í tilefni bæjarferðarinnar. Hún var á gangi með Önnu Gunnlaugu Friðriksdóttur, móður sinni. „Við erum ekkert búnar að fara í neinar búðir núna.“ - Þannig að jólagjafastressið hefur ekkert gripið um sig? „Nei, ekki ennþá alla vega. Ég hugsa að jólagjafirnar fari mest megnis bara á vefversluninni,“ segir Anna.

Árni Ólafsson var ásamt tveimur sonum sínum í bænum. „Við komum hérna til þess að fara með úr í viðgerð og ákváðum að taka smá rölt.- Það er ekkert verið að kíkja á jólagjafir? Nei, ekki ennþá.“

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV