Hver var hin dularfulla draumadís Beethovens?

Ein dularfyllsta ráðgáta tónlistarsögunnar er funheitt ástarbréf sem fannst í leynihólfi í skrifborði Ludwigs van Beethoven að honum látnum. Tvær konur, Antonie Brentano og Josephine Brunswick, hafa þótt líklegir viðtakendur bréfsins, .
 Mynd: - - CC

Hver var hin dularfulla draumadís Beethovens?

21.11.2020 - 09:00

Höfundar

Ein dularfyllsta ráðgáta tónlistarsögunnar er funheitt ástarbréf sem fannst í leynihólfi í skrifborði Ludwigs van Beethoven að honum látnum. Talið er líklegt að bréfið hafi verið skrifað til annað hvort Antonie Brentano eða Josephine Brunswick.

Árni Heimir Ingólfsson skrifar:

Ástarbréfið, sem er nú geymt á Ríkisbókasafninu í Berlín, er talið ritað í Teplitz í norðanverðum Bæheimi árið 1812 og í því opinberar tónskáldið tilfinningar sínar með hætti sem annars sést sjaldan í bréfum hans. Ljóst er að hann átti í heitu ástarsambandi við konuna og þau átt tilfinningaþrunginn fund aðeins fáeinum dögum áður, en í bréfinu nefnir hann ástkonu sína hvergi á nafn og engar beinar vísbendingar eru um það hverri bréfið var ætlað. Allt frá því að það kom í leitirnar eftir lát Beethovens hefur hún verið nefnd „ástmeyjan ódauðlega“ (die unsterbliche Geliebte), en þannig ávarpar Beethoven hana á einum stað í bréfinu.

 Um þetta dularfulla bréf er fjallað í fimmta þætti raðarinnar Beethoven: Byltingarmaður tónlistarinnar, sem hljómar um þessar mundir á Rás 1 í umsjá Árna Heimis Ingólfssonar.

Fjölmargar konur sem Beethoven átti vingott við hafa verið nefndar sem mögulegir viðtakendur þessa dularfulla bréfs. Á 19. öld stakk bandaríski fræðimaðurinn Alexander Wheelock Thayer upp á Theresu Brunswick, ungverskri greifafrú sem Beethoven tileinkaði eina af píanósónötum sínum, en sú tilgáta var hrakin snemma á 20. öld.

Það var árið 1972 sem bandaríski tónlistarfræðingurinn Maynard Solomon kom fram með tilgátu sem vakti mikla eftirtekt og hefur æ síðan verið tekin trúanleg, að ástmeyjan ódauðlega hafi verið Antonie Brentano, sem var tíu árum yngri en Beethoven. Hún fæddist í Vínarborg árið 1780 en giftist vel stæðum kaupmanni í Frankfurt þegar hún var 18 ára og lifði þar fremur óhamingjusömu lífi. Eftir að faðir hennar, sem var mikill listaverkasafnari, lést í Vínarborg árið 1809 dvaldi hún þar um þriggja ára skeið til að ganga frá dánarbúi hans og þá tókust góð kynni með henni og Beethoven. Meðal annars er vitað að Beethoven gaf henni handskrifaðar nótur að nýlegu lagi sínu sem einmitt ber yfirskriftina „An die geliebte“, eða Til hinnar heittelskuðu.

Beethoven tileinkaði Antonie Brentano stærsta verk sitt fyrir píanó, Diabelli-tilbrigðin svonefndu, og samdi auk þess lítinn þátt fyrir píanó, fiðlu og selló handa ungri dóttur hennar. En ekkert varð úr frekara sambandi milli þeirra; haustið 1812 fluttist hún aftur til Frankfurt með manni sínum og bjó þar til dauðadags árið 1869.

Ekki hafa þó allir látið sannfærast af tilgátu Solomons um ástmeyna ódauðlegu. Fræðimenn í Þýskalandi og Austurríki hafa sumir haldið fast í kenningu sem fyrst var varpað fram á sjötta áratug síðustu aldar, að hún sé greifynjan Josephine Brunswick, systir Theresu sem nefnd var hér að ofan. Hún var fædd í Bratislava en ólst upp með móður sinni og þremur systkinum í kastala nærri Búdapest. Þegar hún var tvítug gekk hún í hjónaband með greifa nokkrum, en hann lést nokkrum árum síðar og Josephine stóð uppi einstæð móðir með fjögur ung börn.

Josephine var um skeið píanónemandi Beethovens og það virðist hafa verið sérlega kært milli þeirra á árunum 1804–1807. Þá gaf hún samband þeirra upp á bátinn eftir þrýsting frá fjölskyldu sinni, enda hefði það verið brot á siðareglum hefðarfólks á þeim tíma að greifynja gengi að eiga almúgamann, jafnvel þótt hann væri frægasta tónskáld heims. Josephine kvæntist aftur árið 1810 og lifði nokkuð ævintýralegu lífi eftir það, átti meðal annars í umtöluðu ástarsambandi við kennara barna sinna. Hún lést árið 1821 og var jarðsett í kirkjugarði í úthverfi Vínarborgar. Kanadíski tónlistarfræðingurinn Rita Steblin, sem hefur verið einn helsti talsmaður þess hin síðustu ár að Josephine Brunswick sé ástmeyjan ódauðlega, hefur bent á að þegar Beethoven andaðist sex árum síðar hafi vinir hans ákveðið að hann skyldi jarðsettur í sama kirkjugarði og Josephine, þar sem hann hefði oft reikað þar um einn síns liðs síðustu árin sem hann lifði. Gæti hann hafa verið að vitja um leiði hinnar látnu ástvinu sinnar?

Líklega verður aldrei hægt að komast til botns í því hver ástkona Beethovens var sumarið 1812, þar sem heimildir eru af svo skornum skammti. Þó virðist að minnsta kosti sennilegt að þar hafi verið um að ræða aðra af þeim tveimur konum sem hér hafa verið nefndar, Antonie Brentano eða Josephine Brunswick. Hvað sem því líður átti Beethoven aldrei aftur í alvarlegu ástarsambandi; hann var plagaður af heyrnarleysi og almennum heilsuskorti í æ meiri mæli og var piparkarl allt þar til hann lést í Vínarborg árið 1827. 

Hér er hægt er að hlusta á fyrri þætti raðarinnar Beethoven: Byltingarmaður tónlistarinnar.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Beethoven getur kennt okkur dirfsku og þor