Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Ég grét og grét og mamma og pabbi líka“

Mynd: Samsett mynd / RÚV

„Ég grét og grét og mamma og pabbi líka“

21.11.2020 - 12:12

Höfundar

Foreldrar Maríu Reyndal leikstjóra skildu fjórum árum eftir að hún horfði á Kramer vs. Kramer með þeim. Myndin fjallar um skilnað og minnist hún þess að það hafi tekið á fyrir alla fjölskylduna að horfa á hana í bíó. Kramer vs. Kramer er í Bíóást í kvöld.

María Reyndal leikkona og leikstjóri sá kvikmyndina Kramer vs. Kramerí leikstjórn Roberts Benton þegar hún var frumsýnd árið 1979. Hún var ekki nema níu ára en myndin hafði mikil áhrif á hana. „Þetta er í raun fullorðinsmynd en krakkarnir í mínum bekk sáu öll þessa mynd,“ segir María. Sjálf grét hún yfir myndinni og það gerðu foreldrar hennar líka.

Sjokk að sjá að konan gæti gengið út

Myndin fjallar um hjónaskilnað og hlutverk kynjanna. „Sem betur fer erum við komin aðeins áfram í þessum málum,“ segir hún. Dustin Hoffman fer með hlutverk eiginmanns og föður sem veit lítið sem ekkert um einkason sinn. „Hann veit ekki í hvaða bekk hann er og ekki hvar pannan er á heimilinu. Svolítið eins og þetta var fyrir margar fjölskyldur á þessum tíma,“ segir María. Meryl Streep leikur móður og eiginkonu sem sér um uppeldið og heimilishaldið þar til einn daginn að hún yfirgefur feðgana. „Þetta var algjört sjokk fyrir litlu fjölskylduna og mig að sjá og í raun fólk á þessum tíma. Að konan gæti gengið út og valið sig og sinn karríer umfram það að vera móðir.“

Dustin Hoffman var sjálfur að skilja

Myndin er mjög vel leikin, að sögn Maríu, en Dustin Hoffman var sjálfur að ganga í gegnum skilnað þegar hann lék í henni og átti því auðvelt með að lifa sig inn í hlutverkið. „Dustin Hoffman notar sína eigin reynslu af hjónaskilnaðinum til að dýpka myndina og ég held honum hafi tekist mjög vel upp.“ Hún hreppti enda fimm stærstu Óskarsverðlaun fyrir leikara í aðalhlutverki og aukahlutverki, handrit leikstjórn og bestu myndina.

Feður taka meiri þátt í uppeldinu í dag

Sem betur fer hafa hlutverk inni á heimilum þróast í eðlilegra horf síðan myndin var sýnd en góðir hlutir gerast hægt. „Það er bara árið 2000 sem reglur um fæðingarorlof breytast og feður fara að taka meiri þátt í uppeldinu og taka sér fæðingarorlof.“

„Þá datt engum í hug að við færum að búa hjá honum“

Myndina sá litla fjölskylda Maríu sem fyrr segir árið 1979 og fjórum árum síðar skilja foreldrar hennar. „Og þá datt engum í hug að við færum að búa hjá honum. Þannig að myndin var mjög raunsæ á þessum tíma,“ segir hún að lokum.

Kramer vs. Kramer er í Bíóást á RÚV í kvöld kl. 21.30.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Forsetinn sem skildi eftir opið sár á þjóðarsálinni

Kvikmyndir

Vinkonurnar grétu sig í svefn yfir Rob Lowe