Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Auknu fé varið í íþrótta og æskulýðsstarf

21.11.2020 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í dag að til standi að verja auknum fjármunum til að styðja við íþróttahreyfinguna og einnig í tómstundastarf.

„Til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélög á tímum COVID-19 höfum við ákveðið að ráðstafa aukum fjármunum auknum til Íþróttasambands Íslands og æskulýðshreyfingarinnar til að koma til móts við föst rekstrarútgjöld íþróttafélaga þar sem samkomutakmarkanir hafa komið í veg fyrir eðlilega starfsemi félaganna. Ég vek einnig sérstaka athygli á stuðningi vegna launakostnaðar íþróttafélaga sem félags- og barnamálaráðherra kynnti í gær, sem munu skipta sköpum. Þessar fregnir koma í sömu viku og frístundastyrkir eru kynntir, með það að markmiði að jafna tækifæri þrettán þúsund barna á tekjulægri heimilum til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. 45.000 krónur á hvert barn, samanlagt 900 milljónir.“ segir Lilja.

Ekki kemur fram hversu miklu fjármagni verður varið í verkefnið, en fram kom í gær að kynna eigi aðgerðirnar í næstu viku. Hún sagði að stærsta verkefni samfélagsins á næstunni sé bólusetning þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar í heild sinni. 

„Fremst í verkefnaröðinni er þó tryggja heilbrigði fólks, sem er forsenda þess að líf færist aftur í fyrri skorður. Líkt og annars staðar er undirbúningur bólusetningar hafinn hérlendis, þar sem forgangshópar hafa verið skilgreindir og skipulag er í vinnslu. Ísland hefur tryggt sér aðgang að bóluefnum.“ sagði Lilja.

Þá kom hún einnig inn á fyrirhugaðar breytingar á starfsmenntakerfinu, en frá og með næsta hausti fá iðnmenntaðir aðgang að háskólum líkt og þeir sem lokið hafa bóknámi í framhaldsskóla. Þá á að endurskoða fyrirkomulag vinnustaðanámshluta iðnnáms þar sem nemendur þurfa ekki sjálfir að bera ábyrgð á því að komast á samning.