Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Segir mjög aðkallandi að lengja bótatímabilið

Mynd: RÚV / RÚV
Drífa Snædal, forseti ASÍ, fagnar aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem voru kynntar í dag, sérstaklega hækkun grunnatvinnuleysistrygginga, desemberuppbót til atvinnuleitenda og eingreiðslu til öryrkja. Hún segir mjög aðkallandi að lengja atvinnuleysisbótatímabilið, enda sér fjöldi fólks fram á að detta útúr kerfinu á næstunni.

„Svo maður fari í það sem vel var gert þá skiptir það máli að það var loksins orðið við þessu ákalli okkar sem við erum búin að vera með síðan í maí, um að fara inn í kerfin og styrkja grunnstoðirnar, atvinnuleysistryggingakerfið og það að atvinnuleitendur fái desemberuppbót skiptir mjög miklu máli og sömuleiðis eingreiðsla til öryrkja,“ segir Drífa.

En hvers sakniði helst?

Ja, þetta nær ekki alveg þeim markmiðum sem við vildum leggja upp með. Við vildum að atvinnuleysistryggingar yrðu 95 prósent af lágmarkstekjutryggingu, eða lágmarkslaunum. Þetta er svona 87 prósent. Svo er orðið mjög aðkallandi að lengja atvinnuleysisbótatímabilið sem er núna 30 mánuðir og töluvert af fólki mun á næstu mánuðum detta út úr atvinnuleysisbótakerfinu. 

Ætliði að halda áfram að þrýsta á aðgerðir?

Við gerum það að sjálfsögðu. Við lögðum upp með þær aðgerðir sem við töldum nauðsynlegar strax í  maí og við höldum áfram að hamra á því, að sjálfsögðu.