Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Örorkulífeyrir enn langt undir lágmarkslaunum

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir þau úrræði sem ríkisstjórnin kynnti í dag, og snúa að öryrkjum, vera skref í rétta átt en alls ekki nóg. Enn þyrfti örorkulífeyrir að hækka um fjórðung til að verða jafn hár lágmarkslaunum.

Enn langt í land

Meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti í dag var fimmtíu þúsund króna eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem eiga rétt á lífeyri fyrir 18. desember. Greiðslan kemur til viðbótar við desemberuppbót. Þá verða í upphafi næsta árs gerðar varanlegar breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga þegar dregið verður úr innbyrðis skerðingum. 

„Það vantar einn fjórða upp á að örorkulífeyrir sé á pari við lágmarkslaun. Þannig að þetta er skref í rétta átt en dugar ekki,“ segir Þuríður. Enn munar rúmlega 80 þúsund krónum. 

Dregið í sundur í tíu ár

Gert er ráð fyrir að breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga skili tekjulægstu örorkulífeyrisþegunum tæplega 8.000 króna viðbótarhækkun á mánuði umfram fyrirhugaða hækkun upp á 3,6 prósent. Heildarhækkun bóta almannatrygginga til þeirra tekjulægstu verði því tæpar 20 þúsund krónur um áramót.

Þuríður segir ljóst að stjórnvöld hafi hlustað á kröfur félagsins, sem snúa helst að því að örorkulífeyrir verði jafnhár lágmarkslaunum. „Það hefur verið tekið tillit til einhvers af því sem við höfum verið að taka um,“ segir hún.  

Stjórnvöld eigi enn verk fyrir höndum: „Það er orðið býsna vandasamt fyrir ríkisstjórnina að prjóna upp í þetta gat sem hefur myndast milli örorkulífeyris og lágmarkslauna, því það hefur fengið að draga í sundur með þessu í tíu ár,“ segir hún.