Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Guðmundur Fylkisson hlýtur viðurkenningu Barnaheilla

Mynd með færslu
 Mynd: Barnaheill - RÚV
Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hlaut í dag viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2020 fyrir störf í þágu barna og ungmenna sem eru í vanda og þá nálgun sem hann hefur í samskiptum sínum við þau.

Guðmundur hefur starfað innan lögreglunnar í 35 ár. Undanfarin ár hefur hann leitað að börnum sem týnast eða láta sig hverfa. 

Í tilkynningu frá Barnaheill segir: „Guðmundur leggur sig fram um að nálgast ungmenni af virðingu og nærgætni til að auka ekki á vanlíðan þeirra og skaða. Þrátt fyrir að hann starfi fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar hann við leit að börnum alls staðar af landinu. Guðmundur leggur sig fram um að varast staðalímyndir því börnin sem hann leitar að eru á ýmsum aldri og með mismunandi bakgrunn og bakland þeirra missterkt.“ segir í tilkynningu. 

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhendi Guðmundi viðurkenninguna í dag ásamt Hörpu Rut Hilmarsdóttir, formanni Barnaheilla. Barnaheill veita árlega viðurkenningu fyrir sérstakt framlag í þágu barna og mannréttinda þeirra í tengslum við afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember.

Mynd með færslu
 Mynd: Barnaheill - RÚV