Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Bankinn þurft að herða ólina

20.11.2020 - 00:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Bankastjóri Landsbankans segir að hækka hafi þurft vexti á húsnæðislánum til að bregðast við auknum fjármagnskostnaði. Hún segir að bankinn hafi á síðustu misserum þurft að herða ólina og reka sig á lægri vaxtamun en áður.

 

Landsbankinn hækkaði á þriðjudag vexti á nýjum óverðtryggðum húsnæðislánum um allt að 0,20 prósentustig. Íslandsbanki tilkynnti um hækkun vaxta á húsnæðislánum í lok síðasta mánaðar. Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars af miðstjórn Alþýðusambandsins. Bankarnir séu með þessu ekki að axla ábyrgð á erfiðum tímum og auki hagnað sinn á kostnað heimila og fyrirtækja í landinu.

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans segir að fjármagnskostnaður bankans hafi hækkað og því hafi þurft að bregðast við með þessum hætti. Hins vegar nái hækkunin einungis til nýrra lána.

„Vextir hafa ekki hækkað á neinum lánum núverandi viðskiptavina bankans. Það er mjög mikilvægt að það komi fram. Vegna þess að þessi vaxtahækkun upp á 0,15 til 0,20 prósent er á nýjum lánum á föstum vöxtum til 3 til 5 ára en ekki á neinum núverandi lánum viðskiptavina bankans,“ segir Lilja.

„En vextir eru búnir að lækka umtalsvert á síðustu misserum og við höfum alltaf brugðist við vaxtaákvörðun Seðlabankans og ávöxtunarkröfu á markaði en núna hefur hún veitt viðspyrnu og þá verðum við líka að endurspegla það vegna þess að við verðum auðvitað að gæta þess að við séum að verðleggja okkur rétt líka,“ segir Lilja.

Hún segir að gagnrýni ASÍ taki ekki tillit til allra þátta málsins.

„Það er líka rétt að athuga það að vaxtamunur bankans, það er að segja munur á því hvað það kostar okkur að afla fjár og hvað við lánum síðan út á hefur lækkað umtalsvert á þessum tíma. Þannig að við erum líka að herða ólina og reka okkur á lægri vaxtamun,“ segir Lilja

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV