Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Átta rangfærslur í The Crown

The Crown
olivia colman
 Mynd: The Crown

Átta rangfærslur í The Crown

20.11.2020 - 12:49

Höfundar

Greinarhöfundur í breska blaðinu The Guardian fer hörðum orðum um þættina The Crown sem segja frá bresku konungsfjölskyldunni og sýndir eru á Netflix. Simon Jenkins greinarhöfundur segir að í þáttunum hafi raunveruleikanum verið rænt og hann nýttur í áróðursskyni. Þá sé á huglausan hátt listamannaleyfið misnotað. Uppspuninn og árásin á konungsfjölskylduna hafi aldrei verið meiri en í nýjustu þáttaröðinni.

Olivia Colman sé súr á svip og leikur hennar sé skrumskæling á Elísabetu Englandsdrottningu. Áhorfandinn sé skilinn eftir með spurninguna hvað sé satt í þáttunum og hverju logið. Þetta er falssagnfræði eða „fake history“, skrifar Jenkins. Orð og athafnir raunverulegs fólks séu uppdiktuð til að falla betur að söguþræði sem gæti hafa verið skrifaður af heitustu aðdáendum Díönu prinsessu.

Sagnfræðingurinn Hugo Vickers hefur bent á átta atriði í þáttunum sem eru hreinn skáldskapur:

  1. Að Mountbatten lávarður hefði skrifað Karli Bretaprins bréf daginn áður en hann dó.
  2. Að konungsfjölskyldan hefði lagt próf fyrir Margréti Thatcher forsætisráðherra þegar hún heimsótti fjölskylduna í Balmoral-kastala í Skotlandi.
  3. Að Margrét prinsessa hafði haft Díönu að háði og spotti fyrir að heilsa ekki kóngafólkinu í réttri röð eftir tign.
  4. Að Karl Bretaprins hefði hringt daglega í Camillu Parker Bowles í byrjun hjónabands hans og Díönu.
  5. Að Díana prinsessa hefði tekið brjálæðiskast í opinberri heimsókn þeirra hjóna til Ástralíu og þvingað fram breytingu á ferðaáætlun.
  6. Að Margrét prinsessa hefði heimsótt tvær frænkur drottningar á geðsjúkrahús.
  7. Að drottning hefði borið ábyrgð á leka í blöðin um að henni fyndist Thatcher ekki umhyggjusöm.
  8. Þá hefði drottningin ekki verið sýnd í réttum klæðnaði fyrir hersýningu.

Jenkins veltir því fyrir sér hvort markmiðið sé að sýna fram á konungsfjölskyldan hafi komið andstyggilega fram við Díönu prinsessu. Verður því svo haldið fram að þau hafi hreinlega drepið hana? spyr hann.

Tengdar fréttir

Innlent

Eykur The Crown andúð á konungdæminu?

Menningarefni

Debicki leikur Díönu prinsessu í The Crown

Sjónvarp

Jonathan Pryce verður Filippus prins

Menningarefni

Þáttaraðirnar The Crown verða sex talsins