Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Unaðsgefandi jólafílingur" á sjónvarpsskjám landsmanna

Mynd: RÚV / RÚV

„Unaðsgefandi jólafílingur" á sjónvarpsskjám landsmanna

19.11.2020 - 12:38

Höfundar

Hljómsveitin Baggalútur heldur tónlistarveislu í þremur þáttum á RÚV á aðventunni. Þættirnir nefnast Kósíheit í Hveradölum og sá fyrsti er á dagskrá laugardagskvöldið 5. desember.

Baggalútur hefur undanfarin ár haldið vinsæla jólatónleika í Háskólabíói. Tónleikunum hefur verið aflýst í ár og verða allir miðar endurgreiddir. Engu að síður ætla Baggalútsmenn að koma landsmönnum í jólaskap í þriggja þátta tónlistarveislu á laugardagskvöldum í desember. 

Kósíheit í Hveradölum hefur göngu sína á RÚV laugardagskvöldið 5. desember. Í þáttunum verður ilmandi og unaðsgefandi jólafílingur, að sögn Baggalúts. Þar flytur hljómsveitin sígild jólalög og bestu lög Baggalúts í bland við ný lög. 

Fréttatilkynning Baggalúts:

Hafnarfirði, fimmtudaginn 19. nóvember 2020.

Jólatónleikum aflýst
Góðir Íslendingar. Það er með tár á hvarmi og kökk í hálsi sem Baggalútur tilkynnir að fyrirhuguðum jólatónleikum í Háskólabíói í desember 2020 hefur verið aflýst. Allir miðar verða endurgreiddir án tafar. Við þökkum þeim þúsundum tónelskandi jólaunnenda sem keyptu miða í ár og þeim mörgu tugum þúsunda sem hafa sótt jólatónleika Baggalúts undanfarin ár. Við munum sakna ykkar.

Kósíheit í Hveradölum
En. Bíðið við. Hægan. Baggalútur tilkynnir jafnframt, í samstarfi við RÚV, Kósíheit í Hveradölum. Þriggja þátta tónlistarveislu á aðventunni þar sem töfraður verður fram ilmandi og unaðsgefandi jólafílíngur á sjónvarpsskjám landsmanna. Þau veisluhöld hefjast laugardagskvöldið 5. desember og innihalda blöndu af sígildum jólalögum, bestu lögum Baggalúts og brakandi fersku nýmeti fyrir augu og eyru að kjamsa á með fjölmörgum góðum gestum.

Það koma samt jól
Baggalútur minnir jafnramt á vonarglæðandi hátíðarpoppslagarann „Það koma samt jól“ sem hægt er að heyra víða um net. Rétt er líka að minna á jólaspil Baggalúts, Gott í skóinn, sem er fáanlegt á plotubudin.is.

Góðir Íslendingar. Upp með sprittið. Upp með grímurnar. Upp með jólaandann. Niður með pestina. Sjáumst á RÚV. Og grímulaus með hringlaga sólskinsbros í troðfullu Háskólabíói í desember 2021. Það koma samt jól.

Sóttvarin ást og friður,
Baggalútur.