Ræða við sóttvarnayfirvöld um opnun skíðasvæða

Mynd með færslu
 Mynd: Skíðasvæði Dalvíkur

Ræða við sóttvarnayfirvöld um opnun skíðasvæða

19.11.2020 - 12:49

Höfundar

Forstöðumenn skíðasvæða eiga nú í viðræðum við sóttvarnayfirvöld um leiðir til að geta opnað skíðabrekkurnar um og eftir næstu mánaðamót. Nægur snjór verður brátt í brekkunum en miðað við núverandi reglur er bannað að hleypa fólki í lyfturnar.

Snjóframleiðsla er hafin á skíðasvæðum sem hafa búnað til þess auk þess sem talsvert hefur snjóað í brekkur.

Nokkur skíðasvæði að verða tilbúin

Þannig er staðan til dæmis á skíðasvæði Dalvíkinga þar sem Hörður Finnbogason er svæðisstjóri. „Við hófum snjóframleiðslu hér í gær í einhverjum mínus 10 gráðum og það er bara komið töluvert af snjó og staðan er bara býsna skemmtileg.“ Og það er svipuð staða víðar. Þannig er stefnt að opnun í Skarðsdal á Siglufirði fyrsta desember og einnig í Tindastóli í Skagafirði. Í Hlíðarfjalli vonast menn til að brekkurnar verði tilbúnar 17. desember.

Falla undir sömu skilyrði og aðrir

Alls staðar er þó sá fyrirvari að sóttvarnayfirvöld leyfi opnun skíðasvæða. Öllum skíðasvæðum var lokað í fyrstu bylgju faraldursins í mars. „Akkúrat eins og staðan er núna þá náttúrulega föllum við bara undir sömu skilyrði og aðrir aðilar. Þannig að við fylgum bara þeim reglum sem eru í gangi akkúrat núna,“ segir Hörður.

Ræða við sóttvarnaryfirvöld um leiðir til að opna svæðin

Samtök íslenskra skíðasvæða eiga nú í viðræðum við sóttvarnayfirvöld um leiðir til að geta opnað lyfturnar. Í vor segir Hörður að ýmsar leiðir hafi verið skoðaðar á skíðasvæðunum og menn hafi reynt býsna margt til að geta haft opið. Því sé búið að leysa marga hnúta eins og hann orðar það. „Það er áframhaldandi vinna að sjálfsögðu í gangi. Og auðvitað erum við að horfa í kringum okkur líka og sjá hvað er í gangi í Evrópu og eins Bandaríkjunum. Þar hafa svæði opnað nú þegar, þar eru allskonar lausnir sem við getum nýtt okkur hér líka. Þannig að þetta samtal vonandi, enn og aftur, fer bara vel.“

Tengdar fréttir

Akureyri

Ný skíðalyfta í Hlíðarfjalli á lokametrunum

Akureyri

Hlíðarfjall varð af helmingi áætlaðra tekna

Innlent

Öllum skíðalyftum lokað vegna veirunnar