Klara: 95% viss um að Ísland fari á EM

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV

Klara: 95% viss um að Ísland fari á EM

19.11.2020 - 15:06
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir sambandið búa sig undir það að 21 árs lið karla fari á EM á næsta ári. Enn er eftir beðið niðurstöðu frá UEFA vegna leiks Íslands og Armeníu sem var frestað.

 

21 árs lið karla á annað sæti undanriðils síns víst eftir leiki gærkvöldsins í riðlinum. Þó þarf að bíða þess að aganefnd UEFA úrskurði um leik Íslands og Armeníu sem var aflýst vegna fjölda kórónaveirusmita í armenska liðinu.

„Við viljum bíða eftir formlegri staðfestingu en við erum að uppfæra fjárhagsáætlanir í dag. En auðvitað erum við að fara í úrslitakeppnina en þangað til að við fáum staðfestingu frá UEFA þá svona erum við tiltölulega róleg,“ segir Klara.

Klara segist hiss á að UEFA sé ekki þegar búið að úrskurða um leikinn og KSÍ gangi út frá því að Íslandi verði dæmdur sigur í samræmi við önnur fordæmi. Þá verði sætið á EM í höfn.

„Mér finnst þetta pínulítið skrítin skilaboð sem við höfum fengið, því til dæmis er aganefnd UEFA nú þegar búið að fella úrskurð vegna Noregs, að Noregur hafi ekki mætt til leiks í Þjóðadeildinni og sá leikur var á eftir U21 leiknum en á sama tíma er ekki búið að afgreiða það mál þannig ég svo sem veit ekki alveg í hvaða ferli þetta mál er í hjá UEFA,“ segir Klara.

„En UEFA hefur sagt það að við munum fá niðurstöðu innan nokkurra daga. Það er stutt í dráttinn svo við bara bíðum spennt en við erum byrjuð að undirbúa okkur ekki spurning,“ segir Klara.

En hversu örugg eru þið um að liðið verði með á EM?
Ég myndi segja 95% sko, segir Klara Bjartmarz.

 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ísland nánast öruggt á EM

Fótbolti

Dramatískt sigurmark og EM-vonin lifir hjá Íslandi