Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Horfði á eftir ævistarfinu þegar öllu fé var lógað

19.11.2020 - 20:16
Bóndi í Skagafirði horfði á eftir ævistarfinu í dag þegar lokið var við að lóga tæplega 900 kindum og geitum á bænum. Hann segir bætur ekki standa undir kostnaði við að endurreisa búið og kallar eftir svörum frá landbúnaðarráðherra um næstu skref.

„Vildi láta brenna þær, ekki urða“

Riða kom upp á bænum Stóru-Ökrum í Skagafirði um miðjan október. Síðan hefur sjúkdómurinn greinst á fjórum öðrum bæjum í sveitinni, þar á meðal hjá hjónunum Guttormi og Kristínu á Grænumýri. Lokið var við að lóga öllu fé þar í dag. 

„Já það var tekinn helmingur fyrir viku síðan og helmingurinn núna, það er vegna þess að ég vildi láta brenna þær, ekki urða,“ segir Guttormur. 

Vill að loforð landbúnaðarráðherra verði efnt

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lofaði í lok október að allt yrði gert til að styðja við bændur og það áfall sem riðusmit hefði í för með sér. Guttormur kallar eftir að það loforð verði efnt. Enn hafi engin svör borist frá ráðuneytinu um framhaldið. 

„Það er náttúrulega mjög gott að fá jákvæð svör en það er ekki nóg bara að svara jákvætt það þarf að gera eitthvað líka. Allavegana eins og staðan er núna þá duga bætur ekki fyrir því að það verði hægt að starta þessu upp á nýtt, ekki í núverandi mynd en maður vonar það besta.“

Hvernig er með þessar bætur, hvernig er þeim háttað?

„Það er náttúrlega bara bætur fyrir gripi og innréttingar og svoleiðis sem eru greiddar en þær eru bara allt of lágar.“

Segir mikilvægt að bændur nýti sér sálrænan stuðning

Guttormur segir málið hafa tekið mikið á bændur og ljóst að tjónið sé ekki síður tilfinningalegt en fjárhagslegt. Hann segir mikilvægt að bændur leiti sér aðstoðar. 
 

odinnso's picture
Óðinn Svan Óðinsson