„Skemmtilegasta sem ég hef gert á lífsleiðinni“

epa08827954 Harry Kane (R) of England in action against Kari Arnason (L) of Iceland during the UEFA Nations League soccer match between England and Iceland in London, Britain, 18 November 2020.  EPA-EFE/Michael Regan / POOL
 Mynd: EPA-EFE - GETTY POOL

„Skemmtilegasta sem ég hef gert á lífsleiðinni“

18.11.2020 - 22:20
Þrátt fyrir fjögur mörk fengin á sig var Kári Árnason sem fyrr einn af ljósum punktum íslenska liðsins eftir leikinn. Kári er orðinn 38 ára gamall og segir að þetta hafi verið sinn síðasti landsleikur.

„Ég held að það sé alveg klárt að þetta hafi verið minn síðasti leikur. Þetta var ekki góður fyrri hálfleikur, við náðum aldrei að komast nálægt þeim,“ sagði Kári í viðtali við Sýn eftir leik. Liðið fékk tvö mörk á sig í fyrri hálfleik og voru þau bæði frekar klaufaleg, eitthvað sem ekki sést oft hjá íslenska liðinu.

„Já þetta var klaufalegt, auðvitað er Jack Grealish leikinn, maður á ekki að vera teygja sig í boltann í kringum hann. Gulli brýtur svolítið klaufalega af sér en það kemur fyrir, íslenska landsliðið á ekki að vera fá svona mörk á sig það er alveg ljóst.“

Kári hefur leikið lengi í hjarta varnarinnar með Íslandi lengi en hann á 86 leiki fyrir Íslands hönd. Hann segir ljóst að þetta hafi verið sinn síðasti leikur, tilfinningarnar hafi brotist út strax eftir Ungverjaleikinn.
„Ég tók svolítið út tilfinningaskalann á móti Ungverjalandi, að þetta væri minn síðasti leikur hérna á Wembley, ég vonaðist til að fá að spila hann sem ég gerði. Þetta er end of an era og ég hefði viljað hafa allt gamla bandið inn á vellinum. Þetta hefur verið það skemmtilegasta sem ég hef gert á lífsleiðinni, ég brann fyrir þetta og gerði allt sem í mínu valdi stóð til að þetta lið gæti orðið sigursælt,“ sagði Kári að lokum.