Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einhuga um að ráðast í rannsókn á Arnarholti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Velferðarnefnd Alþingis er einhuga um að ráðist verði í rannsókn á aðbúnaði í Arnarholti og á öðrum vistheimilum. Skiptar skoðanir eru hins vegar um hvort sérstök rannsóknarnefnd Alþingis eigi að skoða málið, eða nefnd á vegum forsætisráðuneytisins.

Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp hafa farið formlega fram á það við Alþingi að fram fari óháð rannsókn á aðbúnaði fatlaðs fólks og fólks með geðrænan vanda síðastliðin 80 ár. Tilefnið er fréttaflutningur af málefnum vistheimilisins Arnarholts.

Samtökin sendu erindið til velferðarnefndar Alþingis í lok síðustu viku. Málið var rætt á fundi nefndarinnar í morgun.

„Við vorum ekki að einskorða umræðuna við Arnarholt heldur þá áskorun sem nefndinni barst um að setja á laggirnar rannsóknarnefnd sem yrði svipuð vistheimilanefndinni forðum,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar.

Var almenn sátt um að ráðast í úttekt, hvernig sem það yrði útfært?

„Já. Mér heyrist nefndarfólk vera einhuga um að þetta þurfi að skoða.“

Óflokkspólitísk leið

Ólafur Þór Gunnarsson, varaformaður nefndarinnar, lagði til á fundinum að rannsókninni yrði skotið til forsætisráðherra, því þar sé reynsla af því að rannsaka svona mál. Helga Vala vill fara aðra leið.

„Ég aðhyllist frekar hina óflokkspólitísku leið, það er að segja að Alþingi feli rannsóknarnefnd að fara í þetta. Við erum svo heppin að vera með skýra lagastoð í lögum um rannsóknarnefndir Alþingis, sem bæði veitir uppljóstrurum vernd, sem veitir þeim sem kallaðir eru fyrir nefndina ákveðna réttarstöðu, og veitir nefndinni heimild til að afla gagna og kalla vitni fyrir nefndina. Þannig að mér finnst það vera sá vettvangur sem svona viðkvæm mál þurfa að fara í.“

Helga Vala segir að málið verði rætt að nýju á næsta fundi nefndarinnar í næstu viku.

„Ég hugsa að við tökum ákvörðun um það á næsta fundi, á hvaða formi þessi rannsókn verður. En hún er nauðsynleg.“

Nær í tíma

Ef velferðarnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að það eigi að ráðast í einhvers konar rannsókn, hvað gerist þá næst? Þarf ekki Alþingi að ræða málið?

„Það eru þá tvær leiðir sem eru mögulegar. Það er þá annars vegar að fela þinginu, með þingsályktunartillögu, að setja á laggirnar rannsóknarnefnd. Við höfum séð slíkar nefndir áður, sem eru þá bara skipaðar þar til bærum aðilum utan þings. Það eru ekki þingmennirnir sjálfir sem fara í það, heldur eru aðilar utan úr bæ fengnir í verkið. Við höfum séð þetta mikið í rannsóknum eftir hrun, rannsókn á Íbúðalánasjóði, rannsókn á sölu Búnaðarbankans og fleiru. Þar eru kallaðir til sérfræðingar til þess að fara ofan í saumana á þessu. Hin leiðin er að fela stjórnvöldum að fara í einhvers konar rannsókn, þá í einhvers konar stjórnsýslunefnd. Þannig að það eru þessar leiðir sem verið er að ræða.“

En hvaða þýðingu hefur það ef velferðarnefnd kemst að þeirri niðurstöðu að ráðast skuli í rannsókn?

„Fyrir mér skiptir það öllu máli að nefndin komist saman að einhvers konar niðurstöðu vegna þess að þá erum við að hefja þetta upp fyrir hið flokkspólitíska dægurþras. Þess vegna skiptir það miklu máli að nefndin komi sér saman um þetta, hvaða leiðir á að fara, og að rannsókn verði gerð, af því að samfélagslega held ég að það sé mjög mikilvægt. Það eru einstaklingar úti í samfélaginu sem máttu þola ýmiss konar harðræði ef marka má þær sögur sem okkur hafa verið að berast. Þessir einstaklingar eiga svo fjölskyldur sem minnast þessa. Og svo er hluti þeirra sagna sem við erum að fá núna inn til okkar sem varða mál sem eru miklu nær okkur í tíma heldur en þau mál sem Arnarholt fjallar um. Þess vegna tek ég undir þær áskoranir sem okkur bárust frá Geðhjálp og Þroskahjálp varðandi það að rannsaka ekki bara það sem gerðist hér fyrir hálfri öld, heldur líka það sem gerist í nútímanum,“ segir Helga Vala.