Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ný reglugerð tekur gildi á morgun – Hvað breytist?

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Á morgun, miðvikudaginn 18. nóvember, tekur gildi ný reglugerð heilbrigðisráðherra um tilslakanir á takmörkunum á samkomum og í skólastarfi. Helstu breytingarnar sem felast í tilslökununum eru þær að íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf barna verður heimilt á ný. Þá verður heimilt að hefja starfsemi á hárgreiðslustofum og nuddstofum. Nýja reglugerðin gildir til 1. desember næstkomandi.

Hvað má á morgun sem ekki mátti áður?

Í starfi barna og ungmenna

  • Æfingar, íþróttastarf, æskulýðs,- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verður heimilt jafnt inni sem úti. Þar verða engar takmarkanir settar varðandi blöndun hópa.
  • Leikskólabörn og börn í 1.-4. bekk í grunnskóla mega vera 50 saman en nemendur í 5.-10. bekk mega vera 25 saman. 
  • Nemendur í 5.-7. bekk verða undanþegnir grímuskyldu, rétt eins og yngri börn í grunnskóla og leikskólabörn. 
  • Í skólastarfi á framhaldsskólastigi mega nemendur og starfsmenn vera að hámarki 25 í hverju rými í stað 10 áður. Þar ber starfsfólki og nemendum sem fyrr að nota grímur, sé ekki unnt að halda tveggja metra fjarlægð.

Hvaða starfsemi má hefjast á ný?

  • Starfsemi og þjónusta sem krefst snertingar milli fólks verður heimil með þeim skilyrðum að fólk noti grímur ef það getur ekki haldið tveggja metra fjarlægð sín á milli. 
  • Þessar breytingar eiga til dæmis við um hárgreiðslustofur, nuddstofur og öku- og flugkennslu. 
  • Hámarksfjöldi á stöðum sem þessum verður áfram 10 manns.