Í ljóðabókinni Kærastinn er rjóður eru margir kærastar og líka margar hliðar á sama kærastanum, en þó eru þetta ekki beint rómantísk ljóð. Í raun fjallar bókin um traust. „Og það er svo ofboðslega stórt hugtak,“ segir höfundurinn, Kristín Eiríksdóttir. Fólk sveiflist á milli þess að treysta og treysta ekki. „Þetta er svo mikið grundvallaratriði í öllu. Hvort sem það er í ást eða öðru.“
Kristín er löngu orðin þekkt fyrir ljóð sín, smásögur og skáldsögur. Í þættinum á sunnudaginn munu Haukur Ingvarsson, doktor í íslenskum bókmenntum, og Áslaug Ýr Hjartardóttir, nemandi í almennri bókmenntafræði, rýna í þessa nýjustu ljóðabók hennar sem kom út árið 2019.