„Ég hef aldrei heyrt jafn mikið gleðiöskur“

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson

„Ég hef aldrei heyrt jafn mikið gleðiöskur“

17.11.2020 - 10:13

Höfundar

„Á föstudaginn lenti ég í agalegri reynslu sem endaði á að vera yndisleg og endurreisti trú mína á mannkyni sem hefur reyndar alltaf verið mikil,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður. Hann lenti í því í síðustu viku að týna tölvunni sinni. Í kjölfarið fór af stað alveg ótrúleg atburðarás.

„Ég trúi alltaf á hið góða í manninum og þetta endanlega staðfesti það,“ segir Kolbeinn um málið. Síðdegisútvarpið sló á þráðinn og spurði hann út í ævintýrið.

Tölvan reyndist vera horfin

Hann var fyrir utan heimili móður sinnar og var að koma fyrir dóti í bílnum sínum þegar hann lagði tölvuna frá sér. Þegar allt var komið inn í bílinn, að hann taldi, settist hann inn í hann og hélt sína leið. Um kvöldmatarleytið þegar hann ætlaði að nota tölvuna áttaði hann sig á því að hún væri horfin. „Þá voru góð ráð dýr,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Kolbeinn Óttarsson Proppé - Aðsend
Tölvutaskan víðförula

Leið eins og hluta af Fimm fræknu

Kolbeinn tók upp tólið og hringdi í flesta þá sem hann hafði hitt þann daginn en enginn kannaðist við að hafa séð tölvuna. Allt í einu mundi hann svo eftir þessum tilfæringum í bílnum fyrir utan hjá móður sinni.

Hann setti sig þá í samband við ýmsa íbúa í blokkinni og fékk fjöldann allan af vísbendingum. „Mér leið eins og ég væri hluti af Fimm frænku á tímabili,“ segir hann. „Einhver hafði séð hana undir hádegi, annar um kaffileytið og ég færðist alltaf nær og nær.“

Bréfin voru ekki merkt Kolbeini

Móðir hans benti honum loks á einn nágranna sem Kolbeinn hafði enn ekki spurt. Kolbeinn sló á þráðinn og spurði konuna hvort hún hefði séð töskuna. „Ég hef aldrei heyrt jafn mikið gleðiöskur,“ segir Kolbeinn.

Konan hafði sannarlega tekið töskuna inn og hafði hana í fórum sér en hún hafði sjálf varið töluverðum tíma í að reyna að finna eigandann á þeim gögnum sem voru í töskunni. Það reyndist snúnara en margan hefði grunað.

Í töskunni voru nefnilega nokkur merkt umslög sem hún leit á sem góða vísbendingu, en þau voru ekki merkt Kolbeini. „Ég var með einhver tuttugu bréf sem búið var að bera heim til mín en ég var að reyna að skila þeim því þau eru ekki til mín.

Hún var búin að hringja og hringja og leita uppi fólk sem er skráð fyrir fyrirtæki sem fær öll bréf inn um lúguna hjá mér,“ segir hann. „Hún var búin að vera í enn meiri leynilögregluleik. Gleði hennar var ekki minni en mín þegar ég hringdi.“

Besta einkunn fyrir þjófaleysi

Þegar konan tók töskuna inn hafði hún verið úti og blasað við fjölda fólks allan daginn. Kolbeinn telur líklegast að það hafi vakað fyrir konunni að passa að enginn keyrði á hana, ekki að sjá til þess að henni væri ekki stolið því það var ljóst að það datt engum í hug að taka hana. „Þetta er gott hverfi í Laugarnesinu og ég held að ef ég ætti gefa einkunn fyrir þjófaleysi væri þetta ofarlega á blaði.“ Að lokum lofar Kolbeinn að tefla örlögum tölvu sinnar ekki aftur í tvísýnu.

Rætt var við Kolbein Óttarsson Proppé í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Innlent

„Sáum alls staðar merki um kosningasvindl“

Innlent

Þingmaður vaknaði við ókunnugan mann í svefnherberginu