Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bólusett um allt land við kórónuveirunni

17.11.2020 - 22:49
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Um leið og framlínufólk og þau sem eru í viðkvæmustu hópunum hafa verið bólusett getum við farið að sjá í land með venjulegra líf en við erum að horfast í augu við núna frá degi til dags,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Bólusett verður fyrir kórónuveirunni á öllum heilsugæslustöðvum landsins en ekki er ljóst hvenær.

Tvö bóluefni sem þróuð hafa verið í Bandaríkjunum hafa komið vel út úr rannsóknum og aukið á bjartsýni að brátt verði unnt að ráða niðurlögum kórónuveirunnar sem veldur COVID-19.

„Þetta markar nýjan kafla. Þarna sjáum við svolítið ljósið við endann á göngunum og sjáum að það er spurning um úthald vegna þess að við sjáum fyrir endann á þessu. Við erum með öflugan hóp hér á Íslandi sem er í sambandi við Evrópusambandið og Svía í því að tryggja að við séum við borðið og við höfum þegar undirritað samkomulag við tiltekna framleiðendur og erum komin nálægt því við aðra. Þannig að við erum algjörlega á tánum í þessum efnum og ætlum að tryggja það að Íslendingar fái bóluefni frá fleiri en einum og fleiri en tveimur framleiðendur,“ segir Svandís.

Hún segist engu geta spáð um það hvenær bólusetning hefst hér á landi.

„Það eru ýmsar spurningar sem á eftir að svara. Það er þetta með geymsluskilyrðin, með mögulegar aukaverkanir, hversu lengi efnið virkar og svo framvegis,“ segir Svandís.

Undirbúningur sé hafinn. Hann taki til heilsugæslustöðva og svo þurfi að ákveða hverjir séu í forgangi. 

„Það er í anda þess sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt til sem er þannig að við byrjum á heilbrigðisstarfsfólki og því fólki sem er í framlínu og svo auðvitað líka viðkvæmum hópum,“ segir SVandís
 
Þrátt fyrir að sum bóluefni þurfi að geyma í miklu frost býst ráðherra við því að bólusett verði um allt land.

„Ég sé fyrir mér að þessi framkvæmd verði rétt eins og venjan er með bólusetningar. Við höfum langa reynslu af því að bólusetja fyrir inflúensu og gerum það eftir tilteknu skipulagi og þá eru það í raun og veru heilsugæslustöðvar sem annast það. Að öllu óbreyttu þá geri ég ráð fyrir því  að framkvæmdin verði með svipuðum hætti,“ segir Svandís.

En hvenær verður búið að bólusetja svo marga að öllum hömlum og takmörkunum verði hætt?

Svandís segir viðbúið að áfram verði takmarkanir. Það geti breyst þegar bóluefni kemur. „Um leið og við getum farið að bólusetja viðkvæmustu hópana og framlínufólk að þá getum við farið að sjá í land með venjulegra líf en við erum að horfast í augu við núna frá degi til dags,“ segir Svandís.

Fréttin hefur verið uppfærð.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV