Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aron Pálmarsson vill aflýsa HM í handbolta

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RUV

Aron Pálmarsson vill aflýsa HM í handbolta

17.11.2020 - 06:56
Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, vill að HM í handbolta verði aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Hann segist ekki skilja af hverju verið sé að halda mótið. „Ég veit ekki hvers vegna er verið að fljúga okkur eitthvað og láta okkur spila um verðlaun,“ segir Aron í viðtali við þýska miðilinn NDR.

Danska TV2 greinir frá þessu á vef sínum.  Heimsmeistaramóti félagsliða, sem átti að halda í Sádi Arabíu í síðasta mánuði,  var aflýst í september.

Aron er ekki eini leikmaðurinn sem telur réttast að hætta við HM. Þýski landsliðsmaðurinn Patrick Wiencek er einnig meðal þeirra sem vilja að hætt verði við HM. „Það eru til mikilvægari hluti. Til dæmis heilsan en því hefur hópur manna gleymt.“ Og undir það tekur hinn króatíski Domagoj Duvnjak sem leikur með THW Kiel. 

Fram kemur á vef TV2 að reiknað sé með að fleiri stjörnur handboltans eigi eftir að stíga fram og kalla eftir því að mótinu verði aflýst. Leikmenn eigi erfitt með að sjá hvernig 31 lið eigi að ferðast til Egyptalands og hvernig mótshaldarar ætli sér að láta hin svokallaða „hjúp“ ganga upp. 

Andreas Nilsson, landsliðsmaður Svíþjóðar, hefur sömuleiðis áhyggjur af álaginu á leikmenn þar sem öllum helstu deildum hafi verið þjappað saman. „Þetta verður ringulreið. Þetta er ekki gott.“  Leikmenn bestu liðanna eiga eftir að hafa í nógu að snúast þegar nýtt ár gengur í garð; meistaradeildin,  HM og Ólympíuleikarnir sjálfir sem fram fara í Japan í sumar.  

HM verður að þessu sinni haldið í Egyptalandi. Mótið hefst í janúar og í fyrsta skipti verða þar 32 þjóðir.  Vegna kórónuveirufaraldursins verður leyft að tilkynna 35 leikmenn sem koma til greina í landsliðshópinn en þeir eru alla jafnan 28. Þá fara 20 leikmenn á mótið sjálft í stað 18 eins og venjan hefur verið. 

Ísland er í snúnum riðli á mótinu og mætir þar Portúgal, Alsír og Marokkó. Fyrirkomulagið er að liðunum 32 verður skipt í átta riðla og þrjú efstu liðin komast svo í milliriðla. Leikið verður í fjórum sex liða milliriðlum og þar bætast því þrír leikir við fyrir liðin sem þangað komast. Tvö efstu lið allra milliriðla fara svo áfram í átta liða úrslit.