Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Alfarið ákvörðun Lilju að höfða dómsmál

Mynd: Alþingi / Alþingi
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áttu fullt í fangi með að svara fyrir málaferli Lilju gegn skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins og ummæla sem hún lét falla í útvarpsviðtali. Þingmenn Pírata og Viðreisnar spurði í óundirbúnum fyrirspurnum í dag báða ráðherrana um skoðanir þeirra á málinu, en uppskáru ekki skýr svör. Forsætisráðherra hyggst breyta jafnréttislögum. „Ég breytti rétt sem ráðherra og stend við það,” sagði menntamálaráðherra. 

Ráðherra höfðar mál gegn starfsmanni

Dómsmál sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, höfðaði gegn Hafdísi Helgu Óskarsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, var tvívegis gert að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Sömuleiðis ummæli ráðherrans í viðtali á Bylgjunni á sunnudag. Lilja höfðaði dómsmál gegn Hafdísi til að freista þess að láta ógilda úr­sk­urð kær­u­nefnd­ar jafn­rétt­is­mála um að Lilja hafi brotið jafn­rétt­is­lög með því að ráða Haf­dísi ekki sem ráðuneyt­is­stjóra í mennta­málaráðuneyt­ið.  Úrskurðir kærunefndarinnar eru bind­andi, en málsaðilum er heim­ilt að bera þá und­ir dóm­stóla. Það þýðir þó að ráðherrann þarf að höfða mál gegn Haf­dísi persónulega, sem hún hefur og gert. 

Katrín segist ekki hafa kynnt sér málið til hlítar 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Katrínu, sem er jafnframt ráðherra jafnréttismála, út í hennar persónulegu skoðun á málinu og hvort hún hafi kynnt sér það til hlítar. Þá vitnaði hún í ummæli Lilju í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudag: 

„Ef ég tel að að hafi verið brotið á mér hlýt ég að hafa sama rétt og viðkomandi einstaklingur til að sækja minn rétt.” 

Katrín sagði það alfarið ákvörðun Lilju að höfða dómsmál, enda sé það hennar réttur samkvæmt gildandi lögum. Sem gæti þó breyst.  

„Ég hef lagt til breytingu á lögum um jafna stöðu karla og kvenna að í slíkum málum til framtíðar, sé vilji til þess að höfða mál til ógildingar, verði viðkomandi stjórnsýslunefnd kölluð til, sem var áður, hef lagt til breytingu því ég tel mikilvægt að kerfið sé þannig úr garði gert að það tryggi það að fólk leiti réttar síns telji það að það sé á sér brotið,” sagði Katrín, og bætti við að hún hafi ekki kynnt sér málið ofan í kjölinn, enda sé það ekki á hennar borði. 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi

Hvað fannst henni um þessa „pillu”?

Þá vakti Þórhildur Sunna máls á öðrum ummælum Lilju á Sprengisandi, þar sem hún virtist beina spjótum sínum að ráðningum forsætisráðherra, og hafði eftir Lilju: 

„Það er fyrrverandi þingmaður Alþýðubandalagsins ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu. Það var flutningur, það var ekki einu sinni auglýst.” Þingmaðurinn spurði forsætisráðherra þá hvað henni finndist um þessa „pillu” og hvort hún teldi ráðningaferli sitt við val á skrifstofustjóra jafn vandað og í tilfelli menntamálaráðherra, eða „bera með sér jafnvel svæsnari valdníðslu, eins og orð ráðherra í viðtalinu.” 

Katrín sagði það hafið yfir allan vafa að tilfærsla ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins í starfi væri fullkomlega heimilt. Ráðuneytisstjórinn hafi áður gegnt starfi ríkissáttasemjara: 

„Og var raunar skipuð í það embætti, eftir auglýsingu, af ráðherra framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttur. Þannig að það þarf enginn að velkjast í vafa um að þessi skipun er algjörlega hafin yfir vafa.” 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi

Dómsmál í nafni ríkisstjórnarinnar

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði Lilju út í sama mál og byrjaði á því að vísa í enn önnur ummæli sem hún lét falla á Sprengisandi: 

„Ég er ráðherra. Ég er líka einstaklingur og ég verð alveg eins og allir aðrir í íslensku samfélagi, ef ég tel að það sé brotið á mér þá hlýt ég að eiga sama rétt og viðkomandi einstaklingur að sækja minn rétt,” hafði Þorbjörg eftir Lilju. Hún sagði að með þessum ummælum væri ráðherra á villigötum, enda væri það ráðherra í ríkisstjórn að stefna konu fyrir dóm, sem væri dómsmál í nafni ríkisstjórnarinnar. Þetta væri dæmi um hvernig Lilja starfaði sem ráðherra og hvernig hún beiti valdi sínu. Þarna væri saga um meðferð valds sem væri óþægileg. Þá gagnrýndi hún einnig harðlega orð Lilju um fyrrnefnda embættismenn í öðrum ráðuneytum og spurði Lilju hvort það væri raunverulega hennar skoðun að hún gæti talað svona opinberlega um nafngreinda og ónafngreinda embættismenn. 

Óskaði til hamingju og stóð fast á sínu

Lilja hóf svar sitt á því að óska öllum til hamingju með daginn í ljósi þess að tvær konur voru skipaðar í Hæstarétt í dag. 

Því næst benti hún Þorbjörgu á að dómsmál væri eina leiðin til að fara í ógildingu á úrskurði kærunefndar jafnréttismála. 

„Eina leiðin sem ráðherrann hefur, ráðherra er ekki sammála þessu. Ég breytti rétt sem ráðherra og stend við það.” 

Þorbjörg þakkaði ráðherra fyrir innleggið, en benti á að spurningunni hafði ekki verið svarað svo hún spurði aftur. 

„Ég hef svarað því og ég tel að allt sem var gert í þessu máli standist skoðun. Þess vegna sem ráðherra fer ég fram á ógildingu. Ég er ekki sammála þessum úrskurði. Ef það er orðið svo að stjórnmálamenn eru orðnir hræddir við að standa með sannfæringu sinni, af hverju eru þeir þá í stjórnmálum?

Viljum við hafa stjórnmálamenn eða stjórnmálakonur sem hafa ekki kjark að standa með því sem þau gera? Mitt svar er einfalt: Nei.” 

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi

Fjöldi fyrirspurna til fjölda ráðherra

Óundirbúinn fyrirspurnartími hófst á Alþingi klukkan rúmlega hálf tvö í dag og voru þar sex ráðherrar til svara: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði forsætisráðherra út í vexti bankanna, Karl Gauti Hjaltason Miðflokki spurði heilbrigðisráðherra út í stöðu barna með klofinn góm, Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, spurði félagsmálaráðherra út í stöðu atvinnulausra og atvinnuleysisbætur, sami ráðherra fékk fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni utan flokka, um hælisleitendur. Sveitarstjórnarráðherra og ferðamálaráðherra sluppu við fyrirspurn að þessu sinni.