Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kallar eftir aðgerðaáætlun ef smit greinist í minkum

16.11.2020 - 19:19
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Fyrstu niðurstöður skimunar benda til að minkar hér á landi hafi sloppið við kórónuveiruna. Búið er að greina sýni úr átta af níu minkabúum landsins. Loðdýrabóndi í Skagafirði telur Dani hafa farið offari í aðgerðum sínum og kallar eftir aðgerðaáætlun hér á landi ef upp kemur smit.

Öll bú á Suðurlandi skimuð fyrir helgi

Níu minkabú eru starfrækt hér á landi, eitt í Skagafirði og átta á Suðurlandi, með um 15 þúsund eldislæður. Eftir fregnir af stökkbreyttu afbrigði kórónuveirunnar í minkum í Danmörku hóf Matvælastofnun undirbúning að skimun hér á landi. Öll bú á Suðurlandi voru skimuð fyrir helgi og ekkert smit greindist. Fyrstu lotu sýnatöku lauk svo á Syðra Skörðugili í Skagafirði í dag og eru niðurstöður væntanlegar á morgun. 

Segir viðbrögð Dana ofsafengin

Einar Einarsson, loðdýrabóndi á Syðra Skörðugili í Skagafirði er sannfærður um að veiran greinist ekki í búinu. „Ég hef engan grun um það að það sé Covid-smit í minknum hér hjá okkur í dag og nei ég kvíði því alls ekki sko.“ 

Yfirvöld í Danmörku tilkynntu á dögunum að öllum minkum landsins yrði lógað. Óvissa ríkir þó um framhaldið eftir að í ljós kom að ríkisstjórnina skortir lagaheimild til að ganga svo langt.

„Mér finnst þau ofsafengin og alveg yfirdrifin, að leggja greinina í rúst þó svo að þetta hafi komið upp þá finnst mér að þeir hefði átt að einbeita sér að sýktu búunum, að ná utan um þau og þá kannski skera niður á þeim en að einbeita sér þá líka um leið að því af fullum krafi að vernda hin búin.“

Þarf ekki að vera skýrt regluverk um hvað íslensk stjórnvöld ætla að gera, finnist Covid í minkum?

„Jú, það væri náttúrlega mjög gott að hafa eitthvað aðgerðarplan þegar og ef það kemur upp smit á búi.“